150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að óska eftir sérstakri umræðu um geðheilbrigðisvanda ungs fólks. Þingmaðurinn óskaði eftir umfjöllun um tilteknar spurningar sem mér voru sendar og mér er bæði ljúft og skylt að verða við þeim óskum hér. Hann óskar fyrst eftir umfjöllun um ótímabæran dauðdaga ungs fólks sem getur auðvitað verið af ýmsum orsökum. Það er mjög vandasamt að fjalla um viðkvæm mál af þessu tagi hér, en ég mun fjalla stuttlega um tvennt, annars vegar sjálfsvíg ungs fólks og hins vegar andlát af völdum ofskömmtunar lyfja.

Embætti landlæknis birtir árlega tölur um sjálfsvíg eins og þau eru skráð í dánarmeinaskrá. Þar sem þjóðin er mjög fámenn valda litlar breytingar á fjölda óhjákvæmilega nokkrum sveiflum í dánartíðni. Þess vegna þarf að túlka tölur frá ári til árs af varúð. Síðasta áratuginn hefur árlegur fjöldi sjálfsvíga verið á bilinu 27–49, að meðaltali 39 á ári. Sjálfsvíg eru að jafnaði tíðari meðal karla en kvenna, bæði á Íslandi og í nágrannalöndunum, og ef litið er á tíðni sjálfsvíga í mismunandi aldurshópum á þessum tíma sést að þau voru flest hjá einstaklingum 30 ára og eldri en hins vegar er hlutdeild sjálfsvíga í öllum andlátum mun hærri meðal yngra fólks. Þannig skýrðu sjálfsvíg um þriðjung andláta einstaklinga á aldrinum 15–29 ára undanfarinn áratug og eru ein algengasta dánarorsökin í þeim aldurshópi.

Embætti landlæknis skilgreinir síðan lyfjatengd andlát sem andlát þar sem lyfjaeitrun er undirliggjandi dánarorsök án tillits til ásetnings. Ef litið er á tíðni slíkra andláta í mismunandi aldurshópum sést að þau eru algengust hjá 30 ára og eldri af báðum kynjum en í aldurshópnum 15–29 ára var tíðni slíkra andláta 11,4 á hverja 100.000 íbúa hjá körlum og fjögur á hverja 100.000 íbúa hjá konum. Engin slík andlát voru skráð fyrir börn yngri en 15 ára.

Gögn um það hvaða lyf leiddu til dauða í þessum tilvikum eru ekki aðgengileg en ópíóíðaeitranir eru algengar. Í því samhengi vil ég segja frá því að fyrr á þessu ári tók gildi reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja sem m.a. takmarkar ávísanir ópíóíða og örvandi lyfja. Sé notkun þeirra lyfja skoðuð ári fyrir og eftir reglugerð kemur í ljós að dregið hefur úr ávísunum á þessi lyf um 9,2% milli ára í fjölda dagskammta. Einstaklingum hefur fækkað um 5,8% þannig að það er mælanlegur árangur hvað það varðar.

Hv. þingmaður spyr um ótímabæra dauðdaga ungs fólks með geðrænan vanda sem er tengdur fíkniefnaneyslu. Þetta er tölfræðilega flókin spurning sem er erfitt að svara miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Ekki eru alltaf skráðir greindir geðsjúkdómar í dánarmeinaskrá þar sem upplýsingar liggja yfirleitt ekki fyrir við andlát. Þrátt fyrir að við hefðum þessar upplýsingar myndu þær ekki endilega gefa rétta mynd af því hve mörg af þeim andlátum sem eru vegna lyfja, fíkniefna eða sjálfsvíga eru tengd fyrri sögu um geðrænan vanda. Margar ástæður geta legið að baki þessu, geðrænn vandi er á rófi og hann er vangreindur í heilbrigðiskerfinu. Hann getur verið undir viðmiðum fyrir sjúkdómsgreiningu og svo mætti lengi telja.

Hv. þingmaður nefnir líka að hann óski eftir umfjöllun um það hvað sé til ráða varðandi þessi mál í geðheilbrigðiskerfinu og nefnir líka hugleiðingar sínar í þeim efnum. Eins og fram kemur í þessari umræðu hér er mikil vitundarvakning um geðheilbrigðismál. Ég held að við séum að átta okkur á því að geðheilbrigðismál hafa um langt árabil mætt afgangi og þurfa meiri þunga í umræðunni. Við höfum skilning á því að geðheilbrigði er undirstaða heilbrigðs lífs og heilbrigðra lifnaðarhátta, hefur áhrif á lífsgæði okkar sem einstaklinga og fjölskyldna o.s.frv. Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefnd vinnur nú að breyttri skipun velferðarmála í heild sinni til að ná betur utan um börn og ungmenni almennt. Þessi heildarendurskoðun á þjónustu við börn er mikilvægt skref til að bæta vellíðan og heilbrigði barna.

Virðulegur forseti. Ég verð að stikla á stóru en hv. þingmaður spyr líka um fjármagn, hvort það þurfi meira fjármagn. Um fjárveitingar til geðheilbrigðismála til að efla heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum til að uppfylla stefnu í geðheilbrigðismálum má segja að í ár voru fjárframlög til heilsugæslunnar aukin um 650 milljónir, í fjárlögum 2018 um 60 milljónir, auk 45 milljóna til að efla göngudeild BUGL, og í fjárlögum 2017 voru fjárframlög til heilsugæslunnar hækkuð um 60 milljónir til að auka geðheilbrigðisþjónustu. Í fjárlögum ársins 2018 var fjárlagagrunnur Landspítala hækkaður um 180 milljónir, (Forseti hringir.) beinlínis til að efla geðheilbrigðisþjónustu, og í sömu fjárlögum fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að geta svarað spurningum hv. þingmanns ítarlegar síðar í umræðunni en auðvitað er það þannig að einfaldar lausnir eru ekki til. Ég þakka enn og aftur hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga umræðuefni hér upp.