150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Samkvæmt internetinu var það Jiddu Krishnamurti sem sagði: Það er enginn mælikvarði á heilbrigði að vera vel aðlagaður helsjúku samfélagi.

Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um þessa tilvitnun. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut að manneskja sem er vel aðlöguð samfélaginu sé heil og að manneskja sem sé það ekki sé veik. Það þarf ekki að líta lengra en að skoða tvenn vinsæl trúarbrögð eða bara ólíka menningarheima, jafnvel í sama landinu, til að sjá hvernig sú kenning stenst einfaldlega enga skoðun. Frekar en að líta á geðræn vandamál beinlínis sem sjúkdóm, a.m.k. í öllum tilfellum, ættum við að líta á það sem vangetu tilkomna af einhverjum ástæðum, hugsanlega bara tilviljun, til að fúnkera í samfélaginu. Það getur verið eðlilegt að fullkomlega heilbrigð manneskja fúnkeri ekki í helsjúku samfélagi eða jafnvel heilbrigðu samfélagi, hvað svo sem við meinum með því.

Það er samt vandamál, jafnvel þótt svokölluð heilbrigð manneskja eigi erfitt með að fúnkera í svokölluðu heilbrigðu samfélagi. Við búum þó svo vel að vera uppi á tímum vísindanna og við getum fengið leiðsögn til að ráða betur við líf okkar og fúnkera betur í samfélaginu, umhverfi okkar og lífi, og sú leiðsögn finnst í sálfræði og svokölluðum geðlækningum.

Mér finnst mjög auðvelt að líta á fíkniefni og byrja strax að tala um sjálfsvíg. Hvort tveggja eru mjög alvarleg málefni sem er erfitt að ræða í pontu af nokkurri nákvæmni. Geðheilbrigðisþjónusta og sálfræði þarf að öðlast aðeins öðruvísi sess í samfélaginu að mínu mati og þarf að fara að koma fólki við löngu áður en það er komið að mikilli vímuefnaneyslu eða sjálfsvígshugsunum og á miklu frekar að vera þjónusta sem við lítum á almennar en heilbrigðisþjónustu. Sálfræðiþjónusta á að vera fyrir alla að mínu mati. Til þess þarf fjármagn. En það þarf líka viðhorfsbreytingu.

Í nútímasamfélagi sem er flókið, skrýtið og erfitt er ekkert skrýtið að fullkomlega heilbrigt (Forseti hringir.) fólk eigi í svolitlum vandræðum með að fúnkera í samfélaginu. Þannig eigum við að líta á það, ekki endilega sem sjúkdóm heldur hluta af mannlegu samfélagi, en við þurfum þá líka að fjármagna það almennilega og hafa það viðhorf til þessa málaflokks að hann sé fyrir alla og ekki aðeins veikt fólk.