150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:21]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, fyrir að hefja máls á þessu efni og ráðherra fyrir að vera hérna. Þetta er viðkvæmur málaflokkur og erfitt mál að leysa á tveimur mínútum. Ráðherrann kom inn á það áðan að engar einfaldar lausnir væru til og er ég alveg sammála. Ég hef líka hugsað um það vegna þess að vandinn fer vaxandi og hefur verið mikið til umræðu í samfélaginu. Auðvitað vitum við, a.m.k. veit ég það, að kannabis hefur þróast á þann hátt að það veldur mun meiri geðhvarfasýki en það gerði fyrir tugum ára, þannig hefur þróun ræktunarinnar verið og margt ungt fólk neytir efnisins.

Ég hef líka velt fyrir mér hvort við séum að innræta ungu fólki rétta hluti. Sumir eru haldnir veiki sem ekki er hægt að gera neitt við en í mörgum tilfellum eru veikindin áunnin og þunglyndi er oft undanfari geðsjúkdóma. Innrætum við unga fólkinu nóg að það getur sjálft þjónað samfélaginu, hvað það getur gert fyrir samfélagið en ekki hvað samfélagið getur gert fyrir það? Tölum við þannig til ungs fólks? Hvetjum við ungt fólk til dáða við að gera samfélaginu gagn og finna sjálft sig í því að vera þess verðugt að taka þátt í samfélaginu í stað þess að bera unga fólkið alltaf á höndum okkar og leyfa því ekki að fullorðnast á jákvæðan hátt?

Mér finnst þeirri þróun hafa farið aftur undanfarin ár og áratugi og vil að við hugsum það upp á nýtt.