150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli einhverra þingmanna áðan ræðum við þessi mál hérna reglulega en því miður alltaf innan þess þrönga ramma sem sérstök umræða er. Ég hef á tilfinningunni að það gildi ekki bara um mig heldur fleiri að finnast þeir ekki að hafa lokið umræðunni á nokkurn hátt. Mér hefur fundist mjög margar ábendingar koma fram og almennt finnst mér að sem betur fer, málaflokkurinn er það þungur og alvarlegur, sé öllum ljóst að þetta er ekki vettvangur fyrir hefðbundið pólitískt hnútukast heldur miklu frekar til að stilla saman strengi og leita lausna.

Hér hefur verið talað um allt frá því sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi með mikilvægi geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings í skólastarfi. Ég held að það sé líka afurðin af því að við erum að átta okkur betur og betur á því, eins og hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason nefndi líka, að við þurfum að stilla öll kerfin okkar saman. Við getum ekki leyst þetta eins og afmarkað heilbrigðismál eða afmarkað félagsmál eða verkefni sveitarfélaga eða verkefni skólans. Við verðum að stilla saman strengi og ég er sérstaklega ánægð með það verkefni sem við höfum sett af stað undir þeim merkjum að við viljum styðja við börn í samfélaginu og þingmenn allra flokka hafa komið að, af því að það er verkefni sem verðskuldar slíka nálgun.

Ég staldraði við og lagði við hlustir þegar hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talaði um að við ættum kannski meira að horfa á það hvernig samfélag við byggjum heldur en í hvaða vanda hver og einn er staddur. Ég held að við ættum almennt að horfa á samfélagið meira út frá styrkleikum fólks en veikleikum þess. Ég held að það sé í raun leiðarljósið eða nestið sem við fáum frá umræðunni um málefni fatlaðs fólks, við eigum að horfa meira á það sem fólk getur en það sem það getur ekki. En það er rétt sem hér kemur fram að fyrst og fremst það sem við blasir er í raun og veru það ástand (Forseti hringir.) sem kallar á bráðaaðgerðir. Það eru þær aðgerðir sem ég hef farið yfir hér og ég fagna því að eiga liðsauka í þingheimi hvað varðar að leggja áherslu á geðheilbrigðismál.