150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Hinn 1. júlí 1998 tóku gildi lög um þjóðlendur og var megintilgangur þeirrar lagasetningar að greiða úr óvissu um eignarrétt á landi, eins og sagði í framsögu þáverandi hæstv. forsætisráðherra, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að gera að þjóðlendum „landsvæði sem enginn getur sannað eignarrétt sinn á og hulin hafa verið móðu að því er varðar réttindin yfir þeim“. Við gildistöku laganna hófst óbyggðanefnd handa við að kanna og skera úr um hvaða land teldist til þjóðlendna og hver væru mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendna sem nýttar eru sem afréttir og loks um önnur eignarréttindi innan þjóðlendna.

Verkefni óbyggðanefndar hefur reynst viðamikið einkum vegna gríðarlegs fjölda skjala sem þurft hefur að rannsaka vegna ágreiningsmála fyrir nefndinni, tímafrekrar gagnaöflunar, flókinna álitaefna og fjölda ágreiningssvæða. Eigi að síður er verkefni óbyggðanefndar langt komið en nefndin hefur lokið umfjöllun um rúmlega 88% af flatarmáli meginlandsins og stefnt er að því að nefndin klári starf sitt á árinu 2024.

Óbreyttar málsmeðferðarreglur óbyggðanefndar myndu leiða til þess að nefndin þyrfti líklega lengri tíma til að ljúka verkefni sínu en áætlað er þar sem þungt er í vöfum að viðhafa sömu málsmeðferð og hingað til þegar kæmi að úrlausn um landsvæði utan strandlengju meginlandsins. Þá er ekki tryggt að sá tilgangur laganna að fá skorið úr um mörk eignarlanda gagnvart eigendalausum svæðum á landinu öllu náist nema málsmeðferðarreglum laganna verði breytt í ljósi reynslunnar, enda er mikilvægt þegar óbyggðanefnd lýkur störfum að það sé eins ljóst og kostur er að sérhvert land sé annaðhvort eignarland eða þjóðlenda. Því er tilefni til að endurskoða málsmeðferðarreglur laganna eins og lagt er til í frumvarpinu.

Einnig er tilefni til að tryggja rétt þeirra sem telja til eignarréttinda og rýmka heimildir þeirra til að bera úrskurði óbyggðanefndar undir dómstóla og fá mál endurupptekin fyrir nefndinni. Sérstaða málaflokksins og þau réttindi sem þar eru í húfi gefa tilefni til ráðstafana í þá veru. Mikilvægt er að niðurstöður ráðist í sem flestum tilvikum af efnislegu mati á fyrirliggjandi gögnum fremur en réttarfarslegum atriðum á borð við þau að kröfur aðila um eignarréttindi eða beiðnir um endurupptöku mála berist of seint.

Frá því að lögin um þjóðlendur tóku gildi hefur byggst upp þekking og reynsla af umsjón með þjóðlendum, bæði í forsætisráðuneyti en ekki síður hjá sveitarfélögum þar sem þjóðlendur liggja, en sveitarfélög gegna lykilhlutverki við umsjón og eftirlit með þjóðlendum. Í ljósi reynslu undanfarinna ára er tilefni til að endurskoða ákvæði laganna um skiptingu leyfisveitingarhlutverks vegna nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðlendna á milli ríkis og sveitarfélaga og einnig ákvæði um ráðstöfun tekna sem falla til innan þjóðlendna.

Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að færa leyfisveitingar fyrir nýtingu náma og annarra jarðefna frá forsætisráðuneytinu til sveitarfélaga en þó þannig að jafnframt þurfi samþykki ráðuneytisins fyrir allri slíkri nýtingu óháð því hversu lengi henni er ætlað að vara. Rökin eru þau að það standi sveitarfélögunum nær en ríkinu að veita leyfi fyrir slíkri nýtingu þar sem það rask sem er samfara henni getur haft mikil áhrif á nærumhverfi íbúa sveitarfélaga og mikilvægt að tryggja að nýtingin sé í sátt við íbúana og með náttúruvernd í þjóðlendum í huga. Lagt er til að leyfisveitingarhlutverk ríkisins einskorðist við nýtingu vatns- og jarðhitaréttinda, auk vindorku, sem varðar hag landsmanna allra meira en staðbundin nýting náma og annarra jarðefna.

Í öðru lagi er lagt til að ákvæði laganna um mörkun tekjustofna ríkisins verði felld úr lögunum og er það í samræmi við þá meginreglu laga um opinber fjármál að ekki séu markaðir tekjustofnar í einstökum lögum. Jafnframt er lagt til að við lögin verði bætt ákvæði þess efnis að tekjum sem til sveitarfélaga falla vegna nýtingar lands og landsréttinda skuli, auk annarra verkefna sem þegar eru talin upp í lögunum, verja til uppbyggingar innviða og skipulagsáætlunargerðar. Það er afar brýnt verkefni í ljósi fjölgunar ferðamanna sem heimsækja þjóðlendur og álags sem því fylgir, oft á viðkvæmum svæðum. Enn fremur er skipulagsáætlunargerð grundvöllur nauðsynlegrar stefnumótunar um uppbyggingu innviða innan þjóðlendna.

Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir því að ártali um fyrirhuguð starfslok óbyggðanefndar verði breytt í 2024 svo að lögin endurspegli hvenær raunhæft er að nefndin ljúki við að úrskurða um mörk eignarlanda og þjóðlendna á landinu öllu og til að gæta samræmis við gildandi fjármálaáætlun.

Þá er í fjórða lagi lagt til að skerpt verði á reglugerðarheimild 4. gr. laganna og skýrari heimildir verði veittar til að mæla fyrir um ýmis atriði sem nauðsynlegt er að komi fram í samningum um nýtingu lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda innan þjóðlendna. Eru það einkum atriði eins og endurgjald fyrir afnotin, til hve langs tíma samningar eru gerðir og rétt eða skyldu til að leysa til sín mannvirki sem afnotunum fylgja í lok leigutíma ef svo ber undir.

Þá er gerð tillaga um að bæta við heimild til að mæla fyrir um auglýsingaskyldu í reglugerð sem leiðir af sjónarmiðum stjórnsýsluréttarins um jafnræði og gagnsæi þegar landi og landsréttindum innan þjóðlendna er tímabundið úthlutað.

Í fimmta lagi er lagt til að lögfest verði ákvæði um úrlausn óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu svæða sem enn kann að leika vafi á um hvort eru háð beinum eignarrétti. Lagt er til að þetta verði gert, annars vegar með því að gera ríkinu kleift að auka við kröfur sínar í málum sem eru til meðferðar hjá nefndinni. Staða málsaðila hingað til hefur verið ólík hvað þetta varðar þar sem ríkið hefur ekki átt þess kost að auka við kröfur sínar en gagnaðilar þess hafa getað komið að nýjum og auknum kröfum á meðan á málsmeðferð stendur. Hins vegar er lagt til að óbyggðanefnd verði heimilt að taka til meðferðar svæði þar sem nefndin hefur í úrskurðum gert athugasemd við kröfugerð ríkisins þannig að þær kunna hafa gengið of skammt og eru þau tilvik talin upp í greinargerð með frumvarpinu. Heimildin sem lögð er til að bætt verði við lögin einskorðast við þessi tilvik. Á grundvelli hennar verður því ekki unnt að fjalla um önnur landsvæði og ríkið mun ekki geta lýst kröfum að nýju í land sem áður hefur sætt slíkum kröfum en verið úrskurðað eða dæmt eignarland. Þessi tillaga að lagabreytingu er því í samræmi við það meginmarkmið laganna að ekki ríki óvissa um eignarréttarlega stöðu lands þegar upp frá þessu verki verður staðið sem hófst 1. júlí 1998 með setningu þjóðlendulaganna og var ætlað að svipta burt þeirri móðu sem hafði verið yfir ýmsum svæðum hvað varðar réttindi yfir þeim.

Í sjötta lagi er í frumvarpinu lagt til að óbyggðanefnd verði heimilað að bæta viðbótarþrepi framan við málsmeðferð nefndarinnar í tengslum við landsvæði utan strandlengju meginlandsins og almenninga stöðuvatna þannig að þeim sem telja sig eiga eignarréttindi verði við upphaf málsmeðferðar gefið færi á að lýsa réttindum sínum. Tilgangurinn með slíku ákvæði er að fækka tilfellum þar sem þeir sem telja til eignarréttinda þurfa að gerast aðilar að málum fyrir óbyggðanefnd. Ríkið geti þá tekið afstöðu til erinda hugsanlegra rétthafa og eftir atvikum látið ógert að lýsa kröfum um þjóðlendur á svæðum sem ella kynnu að sæta slíkum kröfum og í framhaldinu viðamikilli, tímafrekri og kostnaðarsamri málsmeðferð. Slíkt ákvæði stuðlar jafnframt að því að áætlanir um verklok óbyggðanefndar standist án þess að slakað sé á kröfum til málsmeðferðarinnar.

Loks eru í frumvarpinu ákvæði sem lúta að því að rýmka heimildir mögulegra rétthafa að landi til að fá endurskoðun á úrlausnum um þjóðlendur. Það er annars vegar gert með því að slaka á því skilyrði að hafa áður gert kröfu fyrir óbyggðanefnd til að geta fengið mál endurupptekið hjá nefndinni eða úrlausn dómstóla um kröfur. Hins vegar er fallið frá almennum skilyrðum stjórnsýslulaga um tímafresti og samþykki ríkisins til að geta fengið mál endurupptekin fyrir nefndinni.

Úrlausn um eignarréttarlega stöðu lands hefur nokkra sérstöðu í samanburði við önnur mál sem leyst er úr fyrir stjórnvöldum og dómstólum. Þar reynir gjarnan á þýðingu gamalla skjala sem varðveitt hafa verið með ýmsum hætti. Þrátt fyrir viðamikla og vandaða leit að gögnum á Þjóðskjalasafni Íslands og víðar er ekki hægt að útiloka að mikilvæg gögn kunni að finnast eftir að meðferð nefndar og e.t.v. einnig dómstóla á viðkomandi máli sé lokið. Gögn sem þá koma í leitirnar geta hugsanlega bent til þess að eignarréttarleg staða lands sé önnur en áður var komist að niðurstöðu um og til að tryggja sem best rétt þeirra sem kunna að byggja réttindi á gögnum sem koma seint fram þykir rétt að rýmka heimildir til aðildar og framsetningar nýrra krafna fyrir dómi og til að fá mál endurupptekin fyrir óbyggðanefnd.

Samráði við gerð frumvarpsins var þannig háttað að áform um lagasetningu voru kynnt þeim sveitarfélögum þar sem þjóðlendur liggja á fundum sem vítt og breitt um landið og einnig fyrir samstarfsnefnd forsætisráðuneytisins um málefni þjóðlendna sem starfar á grundvelli 4. gr. laganna. Þá var haft samráð við óbyggðanefnd við mótun ákvæða sem varða málsmeðferð fyrir nefndinni. Áform um lagasetninguna og drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust umsagnir frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja. Var tekið tillit til athugasemda þeirra eins og tilefni var til og reifað er í samráðskafla greinargerðar með frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Enn ítreka ég að markmiðið er að ekki verði áfram á landinu svæði sem hulin eru móðu að því er varðar eignarréttindi yfir þeim. Sömuleiðis er markmiðið að veita sveitarfélögum aukna ábyrgð á umsjón með þjóðlendum og veita þeim sem telja til eignarréttinda aukin réttindi þegar kemur að málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd og dómstólum. Ég tel því að þetta frumvarp endurspegli með málefnalegum hætti sýn þeirra aðila sem kunna að eiga sitt undir þessum lögum, þ.e. að tekið sé tillit til ólíkra aðila í þessu frumvarpi.

Ég legg svo til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr. að þessari lokinni.