150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Eitt af þeim fyrirtækjum sem fyrir nokkrum árum síðan var hrifsað undan hrammi stjórnmálamanna var Landsbanki Íslands hf. Það þótti á sínum tíma mjög góð latína að kippa ýmsum fyrirtækjum armslengd, eins og það hét, frá stjórnmálunum, en síðan Landsbankinn hf. tók til starfa hefur starfsemi hans verið með ýmsum hætti. Það má m.a. lesa í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem var farið yfir sölu Landsbankans á eignum ýmsum sem ríkissjóður átti og fór mjög hrapallega. Upp úr árinu 2013 vaknaði mikill áhugi hjá Landsbankanum á að byggja nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð á Íslandi. Því var reyndar slegið á frest eftir nokkuð uppnám sem varð m.a. hér í þessum sal. En nú er mönnum ekkert að vanbúnaði og þeir eru búnir að grafa helvíti mikla holu, afsakið, herra forseti, við höfnina, dýrustu lóð sem til er á Íslandi, og vilja byggja höfuðstöðvar sem eru vel við vöxt og kosta í kringum 8 milljarða kr.

Þetta er náttúrlega hrein fásinna, herra forseti, og það hlýtur að koma til að héðan komi ákveðin tillaga til fjármálaráðherra, sem er handhafi þessa hlutabréfs, um að holan við höfnina verði seld í því ástandi sem nú er og í stað þess verði reistar nýjar höfuðstöðvar annars staðar. Ég vil leyfa mér að stinga upp á Breiðholti fyrir nýjar höfuðstöðvar Landsbankans. Það er gott hverfi og stórt og liggur vel við öllum samgöngum og prýðisnærvera að vera þar. Í stuttu máli: Seljum holuna við höfnina, flytjum bankann í Breiðholtið.

(Forseti (SJS): Forseta þykir vænt um að talað sé vel um Breiðholtið.)