150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Það er merkilegur áfangi að ná 100 ára aldri. Árið 1926 var Karlakór Reykjavíkur stofnaður, fyrsta útvarpsstöðin H.f. Útvarp var stofnuð með reglubundnar útsendingar og Ingvar Gíslason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og ráðherra, fæddist þetta sama ár. Fyrsta sjóklæðagerðin var stofnuð á Suðureyri til að framleiða föt fyrir sjómenn, enda kalt og hvasst á miðunum. Það fyrirtæki í ber nú nafnið 66° norður.

Ár eftir ár hefur Landhelgisgæslan mælst sú stofnun sem þjóðin ber hvað mest traust til. Verkefni Gæslunnar eru ansi mörg í lofti, láði og legi og munu aðeins aukast í framtíðinni með aukinni umferð á norðurhveli jarðar. Við leitum til Gæslunnar á raunastundu og eigum að vera stolt af þeirri starfsemi sem þar fer fram. Árið 2026 mun Landhelgisgæslan fagna 100 ára afmæli. Við eigum að nota tímamót til að efla okkur og styrkja. Skip Gæslunnar eru mikilvæg björgunar- og mengunarvarnatæki. Varðskipið Ægir var smíðað árið 1968 og er sannarlega komið til ára sinna. Smíði á varðskipinu Þór hófst árið 2007 og var það afhent 2011, en það er flaggskip Landhelgisgæslunnar og hefur sannað gildi sitt.

Ég vil því varpa því fram hér á þessum tímamótum: Árið 2026 færum við þjóðinni nýtt varðskip og stuðlum að eðlilegri endurnýjun og ræktum það hlutverk okkar sem þjóð að sinna öryggismálum sjófarenda, auðlindagæslu, fiskveiðieftirliti, löggæslu, leit og björgun. Nýtt varðskip árið 2026.