150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt en á sama tíma sorglegt hvernig samfélögum tekst stundum að þvæla umræðu um vísindalegan samhug og jafnvel staðreyndir. Þetta gerist sérstaklega þegar vísindin stangast á við trúarkenningar sem fólki þykir vænt um, stjórnmálakenningar sem fólki þykir vænt um eða hagfræðikenningar sem fólki þykir vænt um. En virðulegi forseti, það þýðir ekkert að rífast við vindinn. Veruleikinn er sá sem hann er. Sama hvaða hagsmuni við höfum, sama hvernig við viljum hafa samfélag okkar og sama hverju við trúum eru fyrirséðar miklar hörmungar úti um allan heim vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Spurningin er hvað við ætlum að gera í því.

Þessa dagana er vinsælt að kalla eftir öllum öðrum leiðum en boðum og bönnum og jafnvel þá er mikið kvartað undan þeim sem í boði eru. Það er eðlilega vinsæll málstaður að vera á móti boðum og bönnum, enda boð og bönn almennt í skásta falli leiðinleg, ef ekki beinlínis skaðleg. Mikil oftrú hefur ríkt á Íslandi í gegnum tíðina á boð og bönn að mati þess sem hér stendur. Því miður munum við þurfa slatta af hvoru tveggja, hygg ég, til að bregðast við þessum vanda. Þá liggur á að við forgangsröðum rétt og séum reiðubúin til að fórna, því að annars munum við ekki ná neinum árangri í því. Þetta verður ekki fyrsta ókeypis máltíðin í heiminum, svo mikið er víst.

En það er fleira sem þarf að gera, sem ég bind vonir við að verði vinsælla, og það er að styðja markvisst og meðvitað og með öflugum hætti þann iðnað, þær vörur og þau vísindi sem hjálpa okkur að kljást við loftslagsbreytingar. Vísindi og hátækni hafa alltaf búið til hvort tveggja lausnir og vandamál fyrir okkur sem dýrategund almennt. Þegar allt kemur til alls voru það vísindin og ótrúlegur árangur okkar sem komu okkur í þessi vandræði til að byrja með. Nú ríður á að við þekkjum lausnina og að hún komi úr sömu átt. Það er með vísindum og hátækni. Það er með því að nýta einnig tæknina sem við höfum, þekkinguna, iðnaðinn og vísindasamfélagið sem við höfum, til að berjast gegn þeirri vá, ekki þannig að við lítum einungis á hana sem hluta af vandanum heldur þvert á móti að við lítum til hennar eftir lausnum.