150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

umræður um málefni samtímans.

[14:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um sérstaka umræðu um þetta mál, sem óskað verður eftir og vonandi kemst á dagskrá sem fyrst, vil ég nefna að þessi umræða þarf í rauninni að eiga sér stað við tvo ráðherra, bæði hæstv. dómsmálaráðherra sem og hæstv. heilbrigðisráðherra sem ber ábyrgð á því að vottorð heilbrigðisstarfsmanna eru skrifuð án þess að umræddir heilbrigðisstarfsmenn virðist nokkurn tímann hitta þann sjúkling sem vottorðið á við um. Það er það sem hefur verið að gerast í málefnum þeirra sem leita hér eftir alþjóðlegri vernd og það er algjörlega á skjön við lög um heilbrigðisstarfsemi, reglugerðir um útgáfu vottorða o.s.frv. Það er auðvitað grafalvarlegt mál að slíkt gerist. Þá er spurningin hvort hæstv. forsætisráðherra þurfi ekki að koma líka í svona umræðu sem sá ráðherra sem fer fyrir ríkisstjórninni. Það er því spurning hvort hæstv. forseti geti farið í að finna út hvernig (Forseti hringir.) megi koma því við, hugsanlega á öðru formi en tveggja mínútna möguleikum þingmanna til að koma málum sínum á framfæri.