150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

innheimta opinberra skatta og gjalda.

314. mál
[14:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er að sjálfsögðu um mikilvægt frumvarp að ræða, verið að samræma hlutina og eins og segir í kaflanum Tilefni og nauðsyn lagasetningar er reglur um innheimtu opinberra skatta og gjalda að finna á víð og dreif í hinum ýmsu lagabálkum. Þá er eðlilegt að tekið sé til í þeim efnum og ég fagna því. Hér segir líka að helsta markmiðið með gerð frumvarpsins sé að tryggja sem best réttaröryggi gjaldenda gagnvart ríkissjóði þegar kemur að innheimtu opinberra skatta og gjalda og að lögfesta gildandi framkvæmd. Þá felur frumvarpið í sér nokkrar breytingar á gildandi framkvæmd sem talið er að verði til bóta og auki jafnræði gjaldenda.

Ég staldra sérstaklega við það sem segir hér að verði til bóta. Nú er það svo, hæstv. ráðherra, að í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, 2020, er verið að afskrifa þegar álagða skatta á einstaklinga og fyrirtæki upp á 17 milljarða kr. Þetta er verulega há upphæð og mætti nýta hana til ýmissa brýnna samfélagsverkefna. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort með þessu frumvarpi megi vænta þess að hér sé verið að gera bragarbót á innheimtu skatta og gjalda til ríkisins og að við horfum ekki upp á svo miklar afskriftir sem greinilega birtast okkur í því fjárlagafrumvarpi sem nú er til umræðu í þinginu.