150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þau gleðja mig mjög. Í þessu tilfelli er ég líka að benda á að við erum með sjálfstætt starfandi skóla á þessu sviði, eins og Nýja tölvu- og viðskiptaskólann, sem kenna sérhæfðar gráður í alls konar tölvunarfræðum, sem er ekki hægt að ná í gegnum venjulega skóla án þess að fara í gegnum allt kerfið. Ég þekki einstaklinga sem hafa farið þessa leið með mjög miklum kostnaði og klárað nám og spjara sig alveg frábærlega á því sviði en hafa rekist á endalausar hindranir í skólakerfinu. Auðvitað segir það sig sjálft að þarna þurfum við að finna grundvöll og reyna að samræma háskólanám og Tækniskólann og allt á því sviði, að einstaklingar sem hafa hæfileika til að fara þá leið þurfi ekki að fara mjög kostnaðarsama leið til að ljúka þessum gráðum heldur geti gert það í gegnum kerfið eins og það er í dag.