150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

Landsvirkjun.

[15:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nýlega barst þeim sem hér stendur svar, á þskj. 193, frá fjármála- og efnahagsráðherra um kostnað Landsvirkjunar vegna sæstrengs. Í svarinu segir, þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur orðrétt eftir Landsvirkjun, með leyfi forseta:

„... þar sem fyrirtækið er undanþegið ákvæðum upplýsingalaga, nr. 140/2012, og um er að ræða upplýsingar viðskiptalegs eðlis sem ekki er unnt að veita ...“ — verður svarið sem sagt ekki veitt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar í lögum nr. 140/2012 er að finna ákvæði um að Landsvirkjun sé undanþegin upplýsingalögum?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Finnst henni eðlilegt að fyrirtæki sem er að öllu leyti í eigu ríkisins neiti að svara Alþingi um upplýsingar sem eru meira og minna sjálfsagðar, þ.e. fyrirspurn um það hversu miklum fjármunum Landsvirkjun hafi eytt á síðustu tíu árum í undirbúning að lagningu sæstrengs? Fyrirspurnin var lögð fram síðla vetrar. Að sjálfsögðu fékkst ekki svar við henni á meðan hér stóð yfir umræða um þriðja orkupakkann svokallaða. En nú kemur þetta svar sem er ekki-svar og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Finnst henni eðlilegt að þetta fyrirtæki sem er alfarið í almannaeigu neiti Alþingi um sjálfsagðar upplýsingar, svör við spurningum sem eru bornar fram af nauðsyn og af því að almenningur þarf vita það sem spurt er um?