150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

skerðingar öryrkja.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það gæti verið gott ráð að við tækjum saman upplýsingar um aukin framlög til málaflokksins sem hv. þingmaður berst ötullega fyrir, og ég ber virðingu fyrir því, og ræðum í framhaldinu hvort framlögin hafi vaxið eða staðið í stað. Þessi málflutningur virðist ganga út frá því að hér sé ekkert annað gert en að þrengja að þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu, hafa orðið fyrir áföllum og eiga rétt á bótum almannatrygginga. Tölurnar sýna bara allt aðra mynd.

Hér tekur hv. þingmaður upp við fjármálaráðherra mál sem heyrir undir annan ráðherra og varðar endurskoðun á reglunum sem hefur staðið yfir í nokkur ár. Við höfum tekið til hliðar 4 milljarða í fjármálaáætlun, erum byrjuð að ráðstafa úr þeim potti, ef svo mætti kalla, á árinu 2019 og gerum ráð fyrir að fullnýta þá upphæð til að bæta réttarstöðu þessa fólks strax á næsta ári.

Þegar hv. þingmaður talar um skerðingar finnst mér að hann horfi gersamlega fram hjá þeirri staðreynd að í bótakerfum ríkisins, sem við rekum saman, erum við með viðleitni til að tryggja að þeir takmörkuðu fjármunir sem við höfum úr að spila rati til þeirra sem eru í mestri þörf. Þá byrjum við að taka frá þá sem hafa aðra tekjustofna, þá sem hafa úr einhverju öðru að spila. Það er leið okkar til að tryggja að þeir takmörkuðu fjármunir sem við höfum fari fyrst til þeirra sem hafa minnst, sem hafa ekkert, sem hafa engin lífeyrisréttindi, búa einir eða hafa engar atvinnutekjur. Það er fólkið sem við setjum fremst í röðina. Þegar hv. þingmaður talar fyrir því að við (Forseti hringir.) afnemum allar skerðingar er hann að tala fyrir hönd allra hinna.