150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda og hælisleitenda.

[15:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að Viðreisn og flokkur hæstv. ráðherra séu ekki sammála um margt. En það gleður mig þó að heyra að hér séum við sammála um mikilvægi þess að standa vörð um hagsmuni og réttindi þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Hér er vissulega um mjög brothættan hóp að ræða. Hæstv. ráðherra gagnrýnir að ég taki hér upp ummæli ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sem er undir forystu Framsóknarflokksins en það er vissulega gert af því að þar talar ráðuneytisstjóri í stað ráðherra, í umboði ríkisstjórnarinnar, um málefni innflytjenda á vinnumarkaði sem eru í mjög viðkvæmri stöðu og hefur verið ítrekað rætt í þessum sal. Það er ítrekað, kerfisbundið og vísvitandi brotið á réttindum þessa hóps. Því miður endurspegluðu ummæli ráðuneytisstjórans sem talaði í umboði ráðherra ekki neina sérstaka virðingu fyrir þessari viðkvæmu stöðu eða hvernig verið væri að brjóta á réttindum þessa hóps. Þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að það sé áréttað af hálfu ríkisstjórnarinnar að slík ummæli séu ekki (Forseti hringir.) í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Það hefur ekki enn þá verið gert.