150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[15:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Mér þótti hæstv. samgönguráðherra taka heldur mjúklega á þegar ráðherrann sagði að ýmislegt væri óljóst og ófrágengið varðandi þetta samkomulag sem ég kýs að kalla viljayfirlýsingu. Meira og minna allt saman sem einhverju máli skiptir er óljóst nema það að meginkostnaðurinn lendir á ríkinu, 105 milljarðar af 120. Þó að kastað sé fram hugmyndum um gjaldafjármögnun hluta þess er ljóst af allri umræðunni eftir að málið opnaðist að horft er til ríkisins og ríkissjóði boðið upp á að selja ríkiseigur eða hvað sem vera vill til að klára þá fjármögnun þannig að kostnaðarskiptingin af þessu er 105 milljarðar á móti 15. Það er í allt öðrum hlutföllum en það sem menn horfa á almennt þegar kemur að almenningssamgöngum, hvar á landið sem er litið.

Það er sérstakt að horfa til þess og heyra talað um að Keldnalandið verði sérstakur áhersluþáttur hvað fjármögnun þessa verkefnis varðar. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan menn stóðu hér í vörn og vörðu það að Landspítali væri byggður á núverandi stað, stækkaður. Þá ætluðu menn aldeilis að byggja nýjan spítala eftir 20 ár eða svo á Vífilsstöðum eða í Keldnalandi. Nú stefnir í að búið verði að selja báða þessa landskika undir annars konar not. Það er ekki heil brú í því hvernig menn nálgast þetta.

Við horfum upp á atriði eins og það hvort eigi að þrengja að einkabílnum eða byggja viðbótarbrautir. Frá ríkisstjórninni berast ein svör og önnur frá borgaryfirvöldum. Þetta eru hlutir sem verður að fá svar við, eru risastórir og það er ekki boðlegt annað en að við fáum svör áður en menn fara að nálgast þetta sem orðinn hlut. Það er svo margt óljóst í þessari viljayfirlýsingu (Forseti hringir.) að það er varla neitt sem hönd á festir nema það að ríkissjóður situr uppi með meginþunga kostnaðarins.