150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ég verð að byrja á að segja að ég held að lausnin sé einmitt í höfuðborgarsáttmálanum. Þar er lausnin. Það gleður mig að heyra hvað þingheimur fagnar þessu samkomulagi af því að ég held að það skipti miklu máli. Ég er líka ánægð með að heyra hæstv. ráðherra tala svona örugglega um Sundabrautina. Hún skiptir miklu máli og þarf að verða að veruleika.

Hæstv. ráðherra talaði um greiðar, skilvirkar, hagkvæmar og öruggar samgöngur. Hann kom líka inn á að það þarf að beita öðrum lausnum í þéttbýli, t.d. stokkalausnum. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér sitjum að átta okkur á því að það að skipuleggja samgöngur í byggð er allt annað en að skipuleggja samgöngur einhvers staðar úti á landi. Það þarf að taka tillit til þess að hér býr fólk og að hér er verið að byggja upp borgarsamfélag. Þá er líka mikilvægt að huga að því að við erum að horfa til framtíðar. Á höfuðborgarsvæðinu mun fólki fjölga um 70.000 manns fram til ársins 2040. Það er heill Hafnarfjörður og Kópavogur, að viðbættum hálfum Garðabæ. Við erum ekki einu sinni að tala um ástandið eins og það er í dag heldur ástandið eins og það verður árið 2040 og þá er eins gott að við séum búin að ná einhverjum árangri í breyttum ferðavenjum með því að bæta þjónustuna í almenningssamgöngunum.

Mig langar að skora á hv. umhverfis- og samgöngunefnd að kynna sér sérstaklega almenningssamgöngur því að það var eiginlega sorglegt að hlusta á formann hv. nefndar tala eins og almenningssamgöngur væru einhver aukahlutur í þessu öllu saman. Hann talaði um 4%. Það er ágætt að hafa í huga þegar við ræðum samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu að við erum fyrst og fremst að velta fyrir okkur háannatímanum. Þar liggja vandamálin. Þá er ekki 4% notkun á strætó heldur nærri 30–40% í almenningssamgöngum. Það er það sem skiptir máli og það sem við eigum að horfa á.

Að öðru leyti langar mig að þakka kærlega fyrir umræðuna og ítreka mikilvægi þess að við vinnum með sveitarfélögunum. Sveitarfélögin þekkja þetta mál miklu betur. Þau eru með þetta á sínu borði á hverjum degi. (Forseti hringir.) Ég fagna þessu framtaki og hvet hæstv. ráðherra áfram í því starfi að tryggja að þessar framkvæmdir verði að veruleika á réttum tíma. Þá þurfa sveitarfélögin líka að taka það til sín og undirbúa sig vel fyrir verkefnið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)