150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra kallaði eftir málefnalegri umræðu um málefni flóttamanna, um þennan viðkvæma málaflokk. Hér hefur því verið fleygt að hælisleitendum fari fjölgandi. Það er ekki rétt. Þeim fer fækkandi núna. Það er ekki málefnalegt, hvorki af hálfu ráðherra né hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Páls Magnússonar, að kenna Alþingi um þessa bölvanlegu framkvæmd. Alþingi gerði ráð fyrir sérstakri vernd fyrir umsækjendur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og taldi þar upp þungaðar konur. Þetta gerði Alþingi. Það er ekki málefnalegt að skýla sér á bak við það að ljósmæður hafi ekki verið nógu skýrmæltar um að ekki væri gott að senda konu í áhættumeðgöngu, gengna 36 vikur á leið, í langt flug. Höfðu þeir ekki munn, þessir menn í lögreglunni sem biðu fyrir utan kvennadeildina með bláu ljósin? Hefðu þeir ekki spurt ef hagsmunir konunnar og réttindi hennar voru í fyrirrúmi, eins og settur forstjóri Útlendingastofnunar hefur haldið fram, ef mönnunum með bláu ljósin hefði ekki verið ljóst af vottorðinu hvort hún hefði heilsu í flug eða ekki? Hefðu þeir ekki beðið um skýringar ef hagsmunir hennar hefðu raunverulega verið hafðir í fyrirrúmi, ef hún átti að fá að njóta vafans en ekki skilvirkni kerfisins margumrædda?

Ef okkur er virkilega annt um að heilsa og líf þungaðra kvenna og ófæddra barna þeirra eigi að njóta vafans getum við (Forseti hringir.) ekki sagt að hér hafi verið farið varlega. Það er spurning sem ráðherra neitar að svara.