150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Margt í henni gæti verið enn sérstakari umræða enda fjölmargt undir eins og heyrðist bersýnilega á ræðum hv. þingmanna. Ég ítreka við hv. málshefjanda að áherslur ríkisstjórnarinnar eru afar skýrar og birtast til að mynda í stefnuyfirlýsingunni um að mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verði lögð til grundvallar í þessum málaflokki. Þannig geng ég að borðinu í þessu ráðuneyti.

Áhersla er einnig lögð á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Það var aðeins gert að umræðuefni að þetta ætti ekki saman, það færi gegn því að tala um mannúð að tala um skilvirkni. Því er ég algjörlega ósammála, mér finnst það óaðskiljanlegt nema hér væri ekkert kerfi. Við hljótum að vera sammála um að það er engin mannúð fólgin í því að láta fólk bíða í lengri tíma, hvort sem svarið er að veita vernd eða ekki. Við sjáum það nú þegar við erum búin að reyna að gera kerfið skýrara og virkara fyrir það fólk sem á rétt á vernd að við erum með þá mannúð að leiðarljósi að svara því innan örfárra daga. Það tel ég mannúð og út frá því verðum við að spyrja: Hvernig á kerfið okkar að virka fyrir þá fjármuni sem við setjum í það? Hvernig ætlum við að forgangsraða fyrir það fólk sem kemur hingað og þarf á vernd að halda? Þannig þurfum við að skoða kerfið. Þar eru tækifæri til að gera betur og ég átta mig auðvitað á því.

Hér var einnig rætt um börn og sérstakan rétt þeirra. Á því hefur verið hnykkt að ef þau dvelja hér um langa hríð, eins og í tíu mánuði án þess að fá niðurstöðu, fá þau efnislega meðferð. Það er réttur til þess að reyna að skýra það ef það er kerfinu að kenna að svarið hefur ekki borist.

Síðan var nefnd þingmannanefndin sem er mikilvægt að fara yfir. (Forseti hringir.) Ég ætlaði auðvitað að fara yfir fjölmörg önnur mál en ég mun skoða nánar verklagsreglur um brottvísun vegna málsins sem veldur því að við ræðum þetta í dag. Það er mikilvægt að það sé skýrt og með mannúð að leiðarljósi.