150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

361. mál
[19:38]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki náð að kynna mér almennilega hvernig þessu ferli á að vera háttað. Það væri mjög gott ef ég gæti fengið vísbendingu um það sem ég spurði um hjá hæstv. ráðherra en ég þakka honum fyrir fyrra svar sem var mjög gott og gagnlegt.

Það er nefnilega mikilvægt til að fá innsýn í hvernig þessum lögum verður ætlað að virka að átta sig á því hvar í ferlinu skilavaldið kæmi inn í tilteknar stofnanir. Ég spyr aftur að því og svo aðeins um það sem hæstv. ráðherra nefndi síðast í ræðu sinni, þ.e. að nokkur atriði í frumvarpinu snúa ekki beint að útfærslu tilskipunarinnar heldur eru vegna samhangandi þátta. Þetta er eitt af því sem fólk hefur mismunandi skoðanir á en ég segi fyrir mitt leyti að mér hefði þótt þægilegra að sjá slík ákvæði sem sérfrumvarp af því að þá er miklu auðveldara að átta sig á því hvar mörkin liggja milli Evróputilskipunar og útfærslu hennar og svo aftur þeirra laga sem eru til þess að aðlaga kerfið okkar og til heimabrúks. En ég læt staðar numið hér.