150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar ræddi mikið um þá miklu ábyrgð og festu sem væri í stjórn opinberra fjármála og ríkisfjármála, sér í lagi undir forystu þessarar ríkisstjórnar. Nú erum við tiltölulega nýkomin út úr umræðu í vor þar sem við þurftum að gefa ríkisstjórninni aukið svigrúm í afkomu vegna mikillar eyðslusemi og útgjaldaþenslu. Báknið hefur verið þanið með fordæmalausum hætti. Á síðasta ári afgreiddum við fjárlög sem áætluð voru með 28 milljarða afgangi, eða 1% af landsframleiðslu, en nú stefnir í að afkoma ríkisins verði a.m.k. í halla upp á 0,5% af landsframleiðslu þetta árið og ekki eru öll kurl komin til grafar þar enn þá. Enn erum við í mikilli óvissu um þróun efnahagsmála en ríkisstjórnin ætlar sér að leggja fram fjárlög fyrir árið 2020 með halla upp á 0,3–0,4% af landsframleiðslu sem nýtir nær allt það svigrúm sem ríkisfjármálin hafa samkvæmt fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Treystir hv. formaður fjárlaganefndar því að engin slík óvissa sé í efnahagslífinu fram undan að óhætt sé að tefla málum svo tæpt?