150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður spyr hvort ég treysti því að þetta haldi allt saman og hvort ekki sé einhver óvissa fyrir hendi. Óvissa er alltaf til staðar. Það er því mikilvægt að byggja upp stöðugleika þannig að við getum mætt óvissu. Ég sagði það í minni ræðu að óvissusvigrúmið hefði verið byggt inn í þessa ríkisfjármálastefnu, og það var farsælt skref, einmitt til þess að áætlanir héldu frekar, þannig að sveigjan er í stefnunni. Þess vegna segi ég að þessi ríkisfjármálastefna sé beinlínis hönnuð til að mæta sveiflunni eins og hún er. Það er þannig sem þetta virkar. Það er það sem fjármálaráð hefur ítrekað bent okkur á. Það sjáum við vera að virka núna. Það er ekki bara að það staðfestist í þeim spám sem við horfum á, enn er spáð hagvexti á næsta ári, 1,7%. Þar erum við vissulega að milda áhrifin. Þetta er staðfest í Peningamálum Seðlabankans og ég fór hér yfir fleiri aðila sem hafa staðfest það.