150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætt svar og tek undir með honum að það þarf að fara ofan í kjölinn á málinu og skoða möguleika á meiri sveigjanleika í fjárveitingum til Landspítalans, hugsanlega í gegnum varasjóð. Það er ágætishugmynd.

Ég vil í síðara andsvari koma inn á sölu losunarheimilda á koltvísýringi. Gert er ráð fyrir u.þ.b. 4,8 milljörðum vegna sölu á losunarheimildum. Á síðasta fjárhagsári voru seldar heimildir fyrir 2,5 milljarða. Nú er verið að hækka skatta á kolefnisútblástur, þ.e. kolefnisgjaldið, um 10%. Það hefur hækkað um 85% frá því að ríkisstjórnin tók við. Eru ekki þversagnir í því, hv. þingmaður, að hækka svona stöðugt gjaldið og halda síðan áfram að selja losunarheimildir eins og það sé orðinn einhver varasjóður sem má grípa í til að mæta halla ríkissjóðs?