150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Svo byrjað sé á fyrri athugasemd hv. þingmanns, varðandi fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar sem ég sat í um skamma hríð, allt of skamma að eigin mati, að sjálfsögðu, þá er ágætt að bera saman fjármálaáætlun þeirrar ríkisstjórnar við vænt útgjöld ríkisins á árinu 2020 sem verða, ef þetta fjárlagafrumvarp verður samþykkt, nærri 100 milljörðum hærri en sú ríkisstjórn hafði stefnt að, þó á grundvelli mjög hagfelldra hagspáa á þeim tíma. Það er kannski grundvallarmunurinn á ábyrgri nálgun á ríkisfjármálin. Það er alveg ljóst að gangur hagkerfisins var meiri og betri en þá var gert ráð fyrir. Ábyrg fjármálastjórn hefði skapað svigrúm til mikilvægra skattalækkana á þessum tíma til að geta örvað hagkerfið á tímum niðursveiflu en ætla ekki að keyra hagkerfið upp úr því með áframhaldandi fjölgun opinberra starfa, með áframhaldandi útþenslu ríkisbáknsins en ekki með skattalækkunum eða þá nauðsynlegri innspýtingu í opinberar fjárfestingar. Það er grundvallarmunurinn á nálgun þeirrar ríkisstjórnar og þessarar, hér hefur einfaldlega öllu svigrúminu verið eytt í bein útgjöld ríkissjóðs en ekki opinberar fjárfestingar eða skattalækkanir. Það þykir mér mjög miður.

En það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabankinn og fleiri aðilar eru einmitt að benda á það að nú við þessar kringumstæður skapi útgjaldaaukningin ákveðna örvun inn í hagkerfið. Ég er einfaldlega að segja: Það er tilviljun ein. Það var ekki háð neinni ráðdeild eða stefnu ríkisstjórnarinnar um ábyrga hagstjórn í ríkisfjármálum heldur þvert á móti féll það bara til af tilviljun einni saman. Stefna ríkisstjórnarinnar öll þrjú árin sem hún hefur lagt fram fjárlög hefur verið gegndarlaus útgjaldaaukning. Núna passaði það ágætlega í fyrsta sinn. Í fyrri tvö skiptin gerði það það ekki.