150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sérstaka framfærsluuppbótin er greiðsluflokkur í örorkulífeyriskerfinu sem var settur á til að tryggja að enginn örorkulífeyrisþegi fari niður fyrir ákveðið lágmark í tekjum. Mjög stór hluti þeirra sem fá þann greiðsluflokk, sérstöku framfærsluuppbótina, er ekki með neinar aukatekjur og fær ekki neina krónu á móti krónu skerðingu. Að tala eins og það að afnema krónu á móti krónu skerðingu komi þeim sem fá sérstöku framfærsluuppbótina öllum til góða er því einfaldlega ekki rétt. Það er ekki hægt að tala um það að öryrkjar hafi verið að borga fyrir þær kjarabætur sem þeir hafa fengið sjálfir. Þeir 13 milljarðar sem hafa komið inn í kerfið frá árinu 2017 hafa einfaldlega farið í það að bæta kjörin almennt. Þar að auki voru 2,9 milljarðar settir í að draga úr vægi þeirra sem eru með tekjur umfram það sem sérstöku framfærsluuppbótinni nemur. Þeir halda því eftir stærra hlutfalli af tekjum sínum en þeir gerðu áður. Það skiptir auðvitað máli til að bæta kjör þess hóps sem er með aukalega tekjur. En eftir stendur að sérstaka framfærsluuppbótin hefur verið sú greiðsla sem hefur haldið þeim (Forseti hringir.) sem bera minnst úr býtum í almannatryggingakerfinu uppi í kerfinu. Svo getum við alveg rætt hvernig eigi að bæta kjör þeirra (Forseti hringir.) enn frekar. Það er hins vegar ekki hægt (Forseti hringir.) að tala um að öryrkjar hafi sjálfur verið að borga fyrir kjarabæturnar til sín. Það er fráleitt.

(Forseti (HHG): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)