150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[23:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki hissa á því að hv. þingmanni hafi þótt það frumlegt svar sem ég flutti honum áðan um gjaldskrárhækkanir ríkisins. Veruleikinn er einfaldlega sá að við höfum oftar en ekki látið þessi gjöld fylgja almennri verðlagsþróun. Við gerum það ekki núna og þess vegna er þetta raunlækkun. Ég veit að það er mörgum þingmönnum framandi að ríkisstjórn lækki skatta og það er von að menn verði hissa í framan þegar það gerist.

Hv. þingmaður kallar eftir ærlegum svörum og ég skal vera ærlegur í svari við seinni spurningu hans um hvort við séum að flækja skattkerfið: Já og nei. Það er heiðarlega svarið. Við tölum vissulega fyrir einfaldara skattkerfi og fækkun skattþrepa. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki meiri styrk en hann hefur, það væri betra ef hann væri meiri. Við stóðum að því í ríkisstjórn sem áður starfaði að fækka skattþrepum. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar á þeim tíma, þó að það sé aukaatriði í málinu, en þetta er niðurstaða m.a. lífskjarasamninga til að ná fram ákveðnum markmiðum til að taka utan um hag þeirra lægst launuðu í landinu og tryggja þeim raunverulegar kjarabætur. Ef það er aðferðin sem dugar þá förum við þessa leið þannig að það er þeim þingmanni sem hér stendur ekkert sérstaklega óljúft að stíga þetta skref að þessu sinni. Við trúum hins vegar á það að áfram verði skattalækkanir.

Það er mjög merkilegt og ég er svolítið undrandi á því, virðulegur forseti, að í þessari umræðu í dag skuli ekki vera meira rætt um tekjuskattslækkanirnar og hversu gríðarlega miklar þær eru sem koma þá til viðbótar við fyrri ákvarðanir um skattalækkanir í þessu árferði. Það finnst mér vera mikil tíðindi.