150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér þriðju fjárlög hæstv. ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, hæstv. ríkisstjórnar sem leidd er af Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og í nánu samstarfi við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Ég hafði ætlað að hefja mál mitt á þeim málaflokki sem tilheyrir hv. velferðarnefnd en get í ljósi nýjustu tíðinda ekki látið hjá líða að minnast á löggæsluna í landinu og nauðsyn þess að við sem förum með fjárveitingavaldið tryggjum þeim sem koma að rannsókn sakamála nauðsynlega fjármuni svo ekki verði réttarspjöll. Þar eru mér efstar í huga tvær stofnanir, héraðssaksóknari annars vegar og skattrannsóknarstjóri hins vegar. Þess vegna hefur Ágúst Ólafur Ágústsson, hv. þingmaður Samfylkingarinnar, lagt fram breytingartillögur þess efnis að þessar tvær stofnanir sem ítrekað hafa farið bónleiðar til fjármálaráðherra um frekara fjármagn fái annað líf svo þær geti sinnt nauðsynlegum rannsóknum efnahags- og skattabrota. Þær hafa ítrekað óskað eftir frekara fjármagni án árangurs en hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson leggur til og við í Samfylkingunni að þessar stofnanir fái aukið fjármagn.

Þetta var nauðsynlegt fyrir gærdaginn en eftir gærkvöldið er alveg ljóst að önnur mál sem þar eru, sem voru töluverð, þurfa að víkja til hliðar vegna meintra brota Samherja í Namibíu og mögulega öðrum ríkjum. Þar birtast landsmönnum, já, og umheiminum öllum, gögn sem benda til stórfelldra brota stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins er varðar mögulegar mútur, mögulegt peningaþvætti, mögulegt skattalagabrot og mögulega fleiri brot. Það að hafa nú fengið slíka opinberun kallar á ítarlegar rannsóknir sem embætti héraðssaksóknara og embætti skattrannsóknarstjóra hafa nú þegar hafið. Ef við ræðum aðeins um stöðu héraðssaksóknara er vert að minna á að embættið er stofnað þegar embætti sérstaks saksóknara er lagt niður. Það embætti var sérstaklega sett á laggirnar eftir hrun íslensku bankanna.

Embætti héraðssaksóknara tók við öllum verkefnum sérstaks saksóknara og skal samkvæmt lögum um meðferð sakamála annast rannsókn ýmissa alvarlegra brota gegn ákvæðum hegningarlaganna, einkum brota gegn ákvæðum auðgunarbrotakafla laganna. Þá annast héraðssaksóknari líka rannsókn alvarlegra brota gegn skatta- og tollalögum, brota gegn lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppnismál, verðbréf, lánsviðskipti og aðra fjármálastarfsemi, brota er varðar umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og annarra alvarlegra, óvenjulegra eða skipulagðra fjármunabrota sem tengjast atvinnurekstri, verslun eða viðskiptum.

Herra forseti. Þetta eru töluverð verkefni en þau er ekki upptalin. Héraðssaksóknari höfðar svo eftir atvikum sakamál vegna þessara brota. Slík vinna kallar á margar hendur. Héraðssaksóknari tók einnig við upphaf embættisins við drjúgum hluta verkefna ríkissaksóknara og höfðar sakamál ef um er að ræða brot gegn einstaka öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga, öðrum en efnahagsbrotum, þ.e. kynferðisbrotakafla hegningarlaga, meiri háttar fíkniefnamál, vegna meiri háttar líkamsmeiðinga, manndráps af ásetningi, manndráps af gáleysi, brota í opinberu starfi, almannahættubrota og frelsissviptingar. Þá skal héraðssaksóknari líka rannsaka mál á hendur starfsmönnum lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hins opinbera starfsmanns eða lögreglu annarra en starfsmanna embættis héraðssaksóknara sem ríkissaksóknari rannsakar.

Þá rannsakar loks héraðssaksóknari brot gegn valdstjórninni.

Til að taka þetta nú alveg saman rannsakar héraðssaksóknari einmitt líka brot er varða ofbeldi gegn opinberum starfsmönnum, hérlendum sem erlendum, hótanir um ofbeldi og annað er varðar opinbera starfsmenn, svo sem mútubrot. Það er því alveg ljóst, herra forseti, að á þessum tímapunkti í sögu íslenskrar þjóðar, þegar fyrir liggur sterkur grunur um alvarleg brot á fjölda greina almennra hegningarlaga, er algjörlega nauðsynlegt að fjárveitingavaldið, Alþingi Íslendinga, tryggi þeim embættum sem fara með rannsókn og ákæruvald í efnahags- og skattalagabrotum íslenskra einstaklinga og lögaðila nægilegt fé svo að hægt sé að fá fleiri hendur á dekk, þótt ég biðji hv. þingmenn og hæstv. forseta afsökunar á því ef líkingin að fá fleiri hendur á dekk kann að vera óheppileg í ljósi tíðinda síðasta sólarhrings.

Á tímum sérstaks saksóknara voru starfsmenn embættisins 110 talsins en hefðu þá þurft að vera 150. Þeim var svo fækkað niður í 70 þegar mesti kúfurinn var farinn. Við upphaf héraðssaksóknara voru þeir 50 alls og í dag sinna rannsókn og ákæru efnahagsbrota hjá embættinu einungis 30 starfsmenn, töluvert færri en þeir voru þegar sérstakur saksóknari var og hét. Þegar rannsaka þarf viðlíka mál og birtist okkur í fréttaþætti Ríkisútvarpsins, Kveik, og blaðinu Stundinni í gærkvöldi verðum við fjárveitingavaldið að rísa upp og tryggja þessum embættum nauðsynlega fjárveitingu. Því skora ég á allan þingheim, stjórnarliða sem og stjórnarandstöðu, að greiða atkvæði með þeirri breytingartillögu við fjárlögin sem 1. minni hluti fjárlaganefndar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, mælti fyrir í dag.

Herra forseti. Þá ætla ég að snúa mér að velferðinni og heilbrigðiskerfinu. Þriðja árið í röð mæta heilbrigðisstofnanir um allt land, stórar sem smáar, á fund fjárlaganefndar með sömu skilaboð, nefnilega þau að ef þær eiga að standa undir lögbundinni þjónustu, ef þær eiga að sinna þeirri þjónustu sem stjórnvöld hafa falið þeim, ef þær eiga að sinna íbúum landsins með fullnægjandi hætti, þeim sjúku, þeim öldruðu, fjölskyldufólki, einstæðingum, öryrkjum, fæðandi konum og slösuðum, verða stjórnvöld að bregða af sinni stefnu um að stofnanirnar dragi sífellt saman seglin vegna ónógs fjárframlags. Þrátt fyrir sífellt fleiri verkefni vegna aukins fólksfjölda, umtalsverðrar aukningar ferðamanna og hækkandi lífaldurs þjóðarinnar leyfa stjórnvöld sér að bera saman framlag til heilbrigðismála almennt á fimm og tíu ára tímabili, rétt eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gerði hérna áðan. Hún bar saman fjárframlög til heilbrigðismála árið 2007 við það sem er í dag, árið 2019, og jafnvel á næsta ári, 2020. Stjórnarliðar hafa leyft sér að hrópa að stöðugt sé verið að bæta í.

Hæstv. fjármálaráðherra leyfði sér að fullyrða í fjölmiðlum fyrir skömmu að það sé bara eitthvað að slíku kerfi sem taki stöðugt meira við en sé samt í vanda og vísaði þá til Landspítalans. Já, það er eitthvað að. Það sem er að þessu kerfi er skilningsleysi stjórnvalda á verkefninu. Auðvitað kostar það meira, annað væri nú. Þetta er einfalt reikningsdæmi. Auðvitað kostar það meira að reka heilbrigðiskerfi fyrir stækkandi hóp aldraðra sem eðli málsins samkvæmt þarf meiri þjónustu. Auðvitað, herra forseti, kostar það meira að reka heilbrigðiskerfi fyrir sístækkandi hóp landsmanna og urmul ferðamanna með tilheyrandi tekjum fyrir þennan sama ríkissjóð, tilheyrandi tekjum, já, því að fleiri landsmenn taka þátt í samneyslunni — skulum við vona — með skatttekjum sínum og urmull ferðamanna skapar ríkissjóði líka miklar tekjur. Þessi sami kór stjórnarþingmanna sem í dúr og moll kyrjar hér þann söng að alltaf sé verið að setja meira og meira fé í heilbrigðiskerfið þarf að hafa nákvæmlega þetta í huga svo að tónn þeirra verði ekki ómstríður. Þau verða að hafa í huga að með auknum fólksfjölda og fleiri ferðamönnum skapast verkefni en líka tekjur. Verkefnin kosta fjármuni og sé það vilji ríkisstjórnarinnar að halda hér úti lágmarksvelferðarkerfi verða þau bara að tryggja til þess fjármagn.

Herra forseti. Tölum aðeins um þjóðarsjúkrahúsið okkar, um Landspítala – háskólasjúkrahús, sem vegna stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum hefur á undanförnum árum fengið sífellt fleiri verkefni til sín. Landspítalinn kostar mikið fé en Landspítalinn er líka ekki í þeirri aðstöðu að geta bara lokað deild, hætt þjónustu og sent verkefnin annað eins og aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Landspítalinn er endastöðin þegar aðrar heilbrigðisstofnanir neyðast til að senda verkefnin frá sér vegna vanfjármögnunar og skilningsleysis stjórnvalda. Landspítalinn fær ekki bara verkefni vegna þessarar stöðu heldur bæta stjórnvöld um betur og færa verkefni sem rekin hafa verið með hreint ágætum árangri af sjálfstæðum aðilum inn á Landspítala eins og nýlegt dæmi sýnir um leitarstöð Krabbameinsfélagsins sem nú á að loka og færa alla krabbameinsleit annað. Já, herra forseti, nú á Landspítali sem sagt að sinna krabbameinsleit í brjóstum en áður var búið að færa leghálsskoðun til Landspítala sem reyndar gat ekki sinnt henni og bað því leitarstöðina aftur um að taka verkefnið að sér, a.m.k. fyrst um sinn.

Nú hafa stjórnvöld aftur fært þá nauðsynlegu skoðun, núna til heilsugæslunnar sem á að sinna þessu, en brjóstaskoðunin fer þá til Landspítala sem væntanlega óskaði eftir því við leitarstöðina að hún sinni henni um sinn af því að það er ekkert pláss á Landspítalanum, hvorki pláss né mannafli.

Herra forseti. Mig langar helst að biðja hæstv. ríkisstjórn að hætta þessari skemmdarstarfsemi en vegna hófsemdar er ég að hugsa um að velja mér háttvísari orð og biðja hæstv. ríkisstjórn um að fara sér hóflega í ruglinu, fara sér hóflega í því hvernig hún ætlar sér að breyta heilbrigðisstarfsemi án þess að sjá fyrir endann á því hver á að leysa af hendi nauðsynlega þjónustu. Já, krabbameinsskoðun er nauðsynleg þjónusta. Án slíkrar nauðsynlegrar þjónustu enda allir í þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Við þurfum á öllum höndum að halda, það er alveg ljóst. Það þýðir ekki að ætla Landspítala að taka bara við öllum verkefnum hvaðanæva að af landinu á sama tíma og spítalinn er vanfjármagnaður, á sama tíma og launabætur vegna kjarasamninga eru ekki fjármagnaðar af hálfu ríkisins, á sama tíma og vegna fjármögnunar er ekki verið að tryggja nauðsynlega mönnun. Yfirfullar deildir vegna fráflæðisvanda eru alfarið á ábyrgð stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar. Öryggi sjúklinga er ekki tryggt og meðan svo er get ég heils hugar tekið undir orð hæstv. fjármálaráðherra um að eitthvað sé að þessu kerfi. Já, en á því ber hæstv. fjármálaráðherra ábyrgð og hann þarf bara að fara að átta sig á þeirri ábyrgð. Hvar erum við stödd, herra forseti, hvers vegna liggur gamalt fólk sólarhringum saman á ganginum á bráðadeild Landspítala? Jú, vegna þess að það kemst ekki út. Það er allt stútfullt.

Við fögnum að sjálfsögðu auknum fjármunum ríkisstjórnarinnar til byggingar hjúkrunarheimila en hjúkrunarheimilin verða ekki rekin án fjármagns í reksturinn. Þau hjúkrunarheimili sem þegar hafa verið byggð standa ekki undir rekstrinum vegna skorts á fjármagni frá stjórnvöldum. Telja þau sig þurfa 800–900 millj. kr. bara til að halda í við núverandi rekstur — en hvað gerði ríkisstjórnin? Hvað gerði hún milli 1. og 2. umr. fjárlaga? Ekki orð, ekki króna, það bættust ekki 1 kr., herra forseti, við fjárlögin milli 1. og 2. umr. og því mun ástandið á þjóðarsjúkrahúsinu okkar, Landspítalanum, ekkert breytast. Það mun versna, áfram verður fráflæðisvandi. Þar mun ríkisstjórnin frekar geyma fólk á ganginum á bráðamóttökunni þar sem sólarhringurinn kostar 250.000 kr. í stað þess að tryggja fjármagn í rekstur hjúkrunarheimila þar sem sólarhringurinn kostar á bilinu 30.000–40.000. Skoðum nú þetta reikningsdæmi. Við viljum frekar borga 250.000 kr. á sólarhringinn fyrir veikt fólk en 30.000–40.000 sólarhringinn fyrir veikt fólk. Þetta, herra forseti, er að mínu mati óhemjuheimskuleg ráðstöfun á fjármunum og verður að segjast eins og er að líklega þarf hæstv. ríkisstjórn á endurmenntun í fjármálalæsi að halda. Þarna er mjög illa farið með fjármuni borgaranna. Það er líka mjög illa með þá farið þegar ekki er tryggt að fólk fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu mánuðum og árum saman þannig að það getur ekki verið virkir þjóðfélagsþegnar. Þar stendur ríkisstjórnin sig líka illa.

Loks verð ég að lýsa yfir miklum áhyggjum af því hvernig Sjúkratryggingar Íslands standa sig í því að kostnaðargreina þá þjónustu sem sjálfstæðir aðilar sinna, hjúkrunarheimilin í landinu, endurhæfingarstofnanir og fleiri stofnanir sem sinna bráðnauðsynlegri þjónustu víða um land. Bráðnauðsynlegri þjónustu því að hún leiðir til aukinnar hagsældar, leiðir til þess að færri einstaklingar lenda á örorku, færri lenda í algjörri óvirkni heldur geta átt lengra gott líf, eins og það er kallað í nýrri skýrslu Kolbeins H. Stefánssonar um nýgengi örorku. Þar kom í ljós að konur eru í miklu meiri hættu á að fara á örorku upp úr fimmtugu. Þær eiga miklu færri góð ár, eins og það er orðað, vegna stoðkerfisvanda. Þar er mesta fjölgunin vegna stoðkerfisvanda sem svo vel væri hægt að fyrirbyggja með því að standa þétt við bak þeirra stofnana sem veita endurhæfingarþjónustu. Þar má nefna stofnanir eins og Náttúrulækningafélag Íslands sem rekur heilsuhælið í Hveragerði og einnig Reykjalund. Þessar stofnanir hafa ítrekað kvartað yfir því hversu illa gengur að vera í samskiptum við stjórnvöld um raunhæfar greiðslur ríkisins vegna þjónustu þeirra við allan almenning í landinu. Þessu þarf að sinna en því miður virðast stjórnvöld ekki vera að sinna þessu sem skyldi.

Þá verður að víkja máli aðeins að öryrkjum. Ég held að við séum öll sammála um að öryrkjar séu sá hópur sem hefur helst orðið fyrir barðinu á misskiptingunni í samfélaginu. Það verður að hækka grunnlífeyri. Það er grátlegt hvernig þeir sem lifa á örorkulífeyri þurfa að horfa á aðra hópa sem líka hafa það skítt, þ.e. þá sem eru á lágmarkslaunum annars vegar og atvinnuleysisbótum hins vegar, sem vonandi er bara tímabundið ástand, horfa á þá vera að stinga lífeyrisþega af hvað varðar fjárhæðir. Hér er verið að skapa umhverfi fyrir tvær þjóðir í einu landi eða mögulega þrjár, herra forseti, þá þjóð sem er ofsalega efnamikil, á miklar eignir og greiðir oft og tíðum lægri skatta en launafólk í formi fjármagnstekjuskatta. Svo er það þjóð sem hefur það ágætt, fjölskyldufólk og þorri almennings, og svo sá hópur sem í hverjum einasta mánuði á ekki fyrir nauðþurftum. Öryrkjar tilheyra langflestir, því miður, síðastnefnda hópnum og enn á að skilja hann eftir. Enn fá öryrkjar að bíða eftir réttlætinu nú og á nýju ári því að þá breikkar bilið milli þeirra og þeirra hópa sem ég minntist á áðan sem einnig hafa það skítt, atvinnulausra og tekjulægstu. Bilið á milli þessara hópa, öryrkja og þeirra tekjulægstu, verður í hverjum einasta mánuði um 90.000 kr., grunnlífeyririnn og tekjulægstu 90.000 kr. Þetta gengur auðvitað alls ekki, bara alls ekki, og ég hvet þingmenn til að íhuga hvort þeir treysti sér ekki til að hækka framlag til öryrkja svo að þeir nálgist a.m.k. þá hópa sem hafa það líka hvað verst í samfélaginu.

Nei, herra forseti, þetta er ekkert hundleiðinleg umræða um fjárlög eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði í gær, heldur heiðarleg umræða um stöðu mála í heilbrigðiskerfinu, stöðu mála í velferðarkerfinu, stöðu mála í réttarkerfinu. Hv. þingmaður sem kvartaði í gær undan því að þingmenn ætluðu sér að nýta sinn lýðræðislega rétt og ræða fjárlögin á þinginu hefur eitthvað misskilið tilgang þjóðþingsins ef hún hefur ætlað sér að renna þessum fjárlögum í gegn án umræðu því að einmitt hér gefur að líta hápólitískt mál. Það eru fjárlögin. Það er nákvæmlega pólitíkin sem á að vera að ræða í þinginu. Þetta snertir daglegt líf alls fólks í landinu.

Það er fjölmargt annað sem þarf að ræða. Ég hef ekki enn komið inn á þá stefnu stjórnvalda sem hefur leitt til lækkunar veiðigjalda sem útgerðin í landinu greiðir fyrir að fá að nýta í sína þágu sameiginlega auðlind landsins. Veiðigjöldin eins og ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákvarða þau standa á komandi ári ekki undir þeim kostnaði sem fylgir nýtingu auðlinda úr hafi. Það er alveg fráleit staða á Íslandi að íslenska þjóðin sem á fiskinn í sjónum fái ekkert út úr því að sjávarafurðir séu veiddar heldur þurfi að borga með skattpeningunum sínum þann aukakostnað sem fellur til vegna fiskveiðanna. Við í Samfylkingunni höfum því lagt til hækkun veiðigjalda, ekki síst núna þegar krónan sem veiktist gerir það að verkum að útgerðirnar hagnast meira — vegna krónunnar sem veiktist.

Herra forseti. Þetta er það sem ég vildi stuttlega koma fram með, enda hefur fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd farið heildrænt yfir stöðu mála og afstöðu Samfylkingarinnar til þessarar þriðju fjárlaga ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og tillögur Samfylkingarinnar þegar kemur að útgjöldum og tekjum ríkissjóðs fyrir árið 2020. Ég vísa í orð hans hvað okkar tillögur varðar.