150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég verð að segja að ég er ekki viss um að þeir sem nú hlýða á Alþingisrásina hafi helst í huga heiðarleika þegar þeir hugsa um Sjálfstæðisflokkinn. Ég er ekki alveg viss um það. Af því að hv. þingmaður talaði um sýndarmennsku og óheiðarleika þá er ég ekki viss um að heiðarleiki sé það orð sem helst kemur upp í huga þeirra sem hugsa um Sjálfstæðisflokkinn á þessum tímum. Ég verð bara að biðja hv. þingmann um að afsaka það.

En hv. þingmaður talaði um fjölda starfsmanna. Hv. þingmaður talaði um þá sem sinntu rannsókn efnahagsbrota. Mér er ljúft og skylt að greina svo frá að lögreglan sjálf hefur metið það svo að ef fjölga ætti lögreglumönnum sem annast rannsókn mála upp í þá tölu sem var fyrir hrun árið 2007 þyrfti að fjölga þeim um svona 100. Hv. þingmaður er að bera saman stöðuna eins og hún var fyrir 12 árum og það er einmitt þetta sem ég var að tala um í ræðu minni áðan, að stjórnarþingmenn, hvort sem þeir eru í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði eða Sjálfstæðisflokknum, eru alltaf að bera saman stöðuna í heilbrigðismálum eins og hún var fyrir 12 árum, árið 2007, og stöðu mála í löggæslunni og réttarkerfinu eins og hún var árið 2007. Hvað voru landsmenn margir árið 2007? Hvað voru ferðamenn á Íslandi margir árið 2007? Hvað voru margir innflytjendur árið 2007?

Herra forseti. Það verður að bera saman raunveruleikann, nú og árið 2007. Það á að margfalda þessar tölur miðað við fólksfjölda o.s.frv. og verkefnin árið 2019. Það þýðir ekki að bera þetta saman eins og þetta séu tvö hliðstæð dæmi.