150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Eins og kom fram í ræðu minni, sem ég veit ekki hvort hv. þingmaður hlustaði á, eru það nákvæmlega 30 starfsmenn sem starfa hjá héraðssaksóknara við rannsókn efnahagsbrota. Ef þingmaðurinn er að halda því fram að þeir hafi verið þrír fyrir hrun, þrír sem rannsökuðu þetta, er alveg ljóst að það var einhver tilgangur með því. Þeir sem vit hafa á segja að ástæða sé fyrir því að embætti skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara séu svelt, séu vanfjármögnuð. Það eru ákveðnir aðilar í samfélaginu sem hagnast á því (Gripið fram í.) að mál fyrnist í rannsókn, að ekki sé hægt að rannsaka þau með fullnægjandi hætti. Það eru ákveðnir aðilar í þessu samfélagi sem græða á því þegar skattalagabrotin fara illa vegna þess að þarna eru tímafrestir sem eru gríðarlega mikilvægir. (Gripið fram í.) Þegar kemur að 150 millj. kr. framlagi til héraðssaksóknara rímar það algerlega við þær tölur sem héraðssaksóknari sjálfur hefur sagt að hann þurfi á að halda. Það var ákveðið að bæta við 45 milljónum vegna þeirra þriggja starfsmanna sem nú er verið að bæta við vegna peningaþvættismála. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður man eftir því að við komumst á svokallaðan gráan lista vegna vanrækslu íslenskra stjórnvalda við að sinna þeim nauðsynlegu verkefnum sem þurfti og þess vegna þarf að bæta við þremur starfsmönnum hjá héraðssaksóknara sem mega eingöngu vera í peningaþvættismálunum. Það kostar nákvæmlega 45 milljónir eða 15 millj. kr. á hvern starfsmann. Þess vegna bætum við við 150 milljónum, af því að héraðssaksóknari sjálfur hefur sagt að það þurfi 10 milljónir til þess að þeir geti haldið haus núna. Þetta var áður en málið í Kveik kom upp. (BN: Af hverju … fyrr?)

(Forseti (ÞorS): Forseti brýnir fyrir þingmönnum að gefa ræðumanni tóm til að tala.)

Ég skal upplýsa þingmanninn um það hér í hliðarherberginu hvers vegna málið kemur upp á þessum tímapunkti. (Gripið fram í.) Það skal ég gera með ánægju af því að tíminn er búinn.