150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að koma inn á í þessari ræðu minni um fjárlög fyrir árið 2020. Það eru allnokkrar breytingar að verða í meðförum fjárlaganefndar á frumvarpinu og þar sem margir eru búnir að fara í gegnum þau atriði ætla ég ekki að gera það í þessari ræðu. En það eru nokkur atriði sem mig langar, eins og ég segi, að halda til haga. Sum þeirra eru endurtekið efni frá því í fyrra og hittiðfyrra og langar mig fyrst að nefna þar tryggingagjaldið sem 0,25 prósentustiga lækkun verður á núna samkvæmt frumvarpinu. Samkvæmt hagspám eru tekjur af tryggingagjaldinu að hækka eilítið, um rúmlega 1,5 milljarða á ári, og verða nú í fyrsta skipti yfir 100 milljarðar á árinu 2020 — nei, fyrirgefið, rétt nær 100 milljörðum á fjárlögum ársins 2019 og áætlun sem er fyrirliggjandi en fer sem sagt upp í rúma 102 milljarða á árinu 2020. Þetta er auðvitað eitt þeirra gjalda sem atvinnulífið kveinkar sér hvað mest undan, enda þekkjum við það flest hér í salnum að hækkun tryggingagjaldsins var með þeim hætti í kringum hrunárin að það er löngu kominn tími til að láta þetta gjald ganga til baka til þess vegar er það var fyrir hrun. Þetta er í raun fyrsta árið núna sem við horfum fram á aukið atvinnuleysi sem einhverju marki nær og viðbótarframlög vegna þess í Atvinnuleysistryggingasjóð sýnast mér vera rétt um 10 milljarðar. Við sjáum hvað þessi umtalsverða aukning í atvinnuleysi er í raun lágt hlutfall af þeim heildartekjum sem í ríkissjóð koma af tryggingagjaldinu. Það er auðvitað búið að bæta fleiri þáttum inn sem tryggingagjaldið á að fjármagna en ég leyfi mér að fullyrða, án þess að fara í djúpa greiningu á því hér í pontu, að tryggingagjaldið er að allt of miklu leyti orðið almenn fjármögnun í ríkissjóð en ekki ætlað að standa undir þeim afmörkuðu þáttum sem því var ætlað í byrjun, jafnvel þó tekið sé tillit til þeirra þátta sem bætt hefur verið inn á seinni stigum undir hatti tryggingagjaldsins. Ég vil því ítreka að það er svekkjandi að sjá hversu hægt gengur að ná þessu gjaldi niður. Við í Miðflokknum höfum lagt fram breytingartillögu við frumvarpið sem gerir ráð fyrir því að tvöfalda lækkunina við þetta fjárlagafrumvarp þannig að lækkunin verði 0,5 prósentustig en ekki 0,2. Staðreyndin er sú að það er alveg svigrúm til þess og við ættum að gera það til að hleypa viðbótarsúrefni inn í atvinnulífið sem víða þarf svo sárlega á því að halda þessi misserin.

Annað atriði sem mig langar til að nefna, sem er endurtekið efni, er fjármagnstekjuskatturinn. Þannig er mál með vexti að fyrir þá sem muna var í fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar, í desember 2017, mikið lagt upp úr því að berja í gegn hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20 í 22% og fékkst samþykkt hér eins og svo sem flestar skattahækkanir sem lagðar hafa verið til í tíð þessarar ríkisstjórnar. Á móti var sagt að að ári yrði útfærslu fjármagnstekjuskattsins breytt þannig að fjármagnstekjuskatturinn tæki á raunvöxtum, ekki nafnvöxtum. Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég hafði ákveðinn skilning á því að menn treystu sér ekki í þá útfærslu á þeim stutta tíma sem gafst við vinnslu fjárlaga fyrir árið í desember árið 2017. Síðan leið heilt ár og var fjárlagavinna í desember árið 2018 en ekkert gerðist. Ég spurði um þetta þá og einhvern veginn hafði ekki fundist tími eða sátt um hvernig ætti að útfæra þetta. Nú erum við komin hér aftur tveimur árum seinna og það hefur ekkert gerst. Var það bara sýndarmennska að leggja málið fram þannig að hækkunarhluti þessara skattbreytinga gengi eftir en svo yrði mótleggurinn, sem átti að verða til þess að fjármagnstekjuskattur legðist á raunávöxtun en ekki nafnávöxtun, settur í saltpækil um fyrirsjáanlega framtíð? Nú eru aðeins ein fjárlög eftir hjá þessari ríkisstjórn þegar þessi verða samþykkt og það verður áhugavert að sjá hvort ríkisstjórnarflokkarnir ætla að standa við þennan hluta loforð síns og það sem fram kemur í stjórnarsáttmála flokkanna, að fjármagnstekjur verði teknar af raunvöxtum en ekki nafnvöxtum. Þetta er atriði sem skiptir máli og það verður rifjað upp að ári ef ekkert hefur gerst á þeim tímapunkti. Sjálfstæðismenn sem styðja þessa ríkisstjórn hafa verið sérstaklega duglegir við að segja að þetta sé að koma, það þurfi aðeins meiri tíma til að útfæra þetta. Nú eru liðin tvö ár og það er því miður fátt sem bendir til þess að nokkur breyting verði á þegar síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar verða lögð fram að ári. Ég vildi minna á þetta því að ég hafði skilning á þessu í fyrstu. — Á ég að tala hraðar eða styttra? (BN: Styttra.) Það er gott að hv. þm. Brynjar Níelsson er kominn í salinn því að á móti því að hann spyrji samflokksmenn sína hvað orðið hafi um breytingartillöguna sem snýr að því að taka fjármagnstekjur af raunvöxtum en ekki nafnvöxtum skal ég hraða máli mínu sem ég mest má. Þetta var samningur sem var gerður á milli okkar rétt í þessu.

Þetta er það sem ég vildi segja varðandi fjármagnstekjuskattinn og ég mun væntanlega rifja það upp að ári ef engar heimtur hafa orðið. En ég treysti hv. þm. Brynjari Níelssyni mjög vel til að ganga á eftir þessu máli því að ég veit að hann hefur mikinn áhuga á því og djúpan skilning.

Næst langar mig að fara í græna skatta. Það hefur verið gagnrýnt oft í þingsal að grænir skattar séu, að því er virðist, sérstakt áhugamál ríkisstjórnarinnar og enginn stjórnarþingmanna fer í grafgötur með það, a.m.k. ekki stjórnarþingmenn Vinstri grænna. En það hefur ekki fengist svar við því enn þá hvaða árangri menn telja sig hafa náð fram með mælanlegum markmiðum með svokölluðu kolefnisgjaldi. Það hefur hækkað trekk í trekk og er nú enn hækkað um 10%, ef ég man rétt. Mér þykir það auðvitað ekki boðlegt að menn gangi fram með þeim hætti að flagga skattahækkun undir fána grænna skatta án þess að hafa neitt haldfast um það hver virkni þeirra er, ef virkni þeirra er einhver yfir höfuð. Staðreyndin er sú að þetta er bara almenn skattahækkun sem þessi ríkisstjórn hefur verið svo áhugasöm um, að því er virðist, því miður. Við í þingflokki Miðflokksins munum á morgun leggja fram breytingartillögu þar sem lagt er til að fallið verði frá fyrirhugaðri hækkun á kolefnisgjaldi en við sjáum hvernig fer með afdrif hennar. Ég er hóflega bjartsýnn og reyndar tiltölulega svartsýnn en það er bara staðan í raunheimum sem kennir manni það.

Ég vil alla vega halda því til haga að enn þá, eftir þann tíma sem við erum búin að fara í gegnum með hækkunarferli kolefnisgjaldsins, hafa til þess bærir aðilar ekki treyst sér til að útskýra með mælanlegum hætti hvaða áhrif sú skattheimta hefur. Það er ekkert í fjárlögunum sjálfum sem bendir til þess að menn reikni með að nein áhrif verði af þeirri skattheimtu.

Annar skattur sem féll svolítið af himnum fyrir nokkrum mánuðum er svokallaður urðunarskattur og vil ég hrósa fjárlaganefnd, er það ekki við hæfi? (Gripið fram í: Efnahags- og viðskiptanefnd.) Efnahags- og viðskiptanefnd er það auðvitað. Þið takið þetta til ykkar, félagarnir sem sitjið þarna. Ég vil hrósa þeirri nefnd sem við á (Gripið fram í: Bara báðum.) — bara báðum — fyrir að falla frá þessum vitleysisskatti. Þetta var auðvitað fullkomlega óundirbúið. Nú fara þeir að afsala sér þökkum, félagarnir hér á fremsta bekk, fyrir ykkur sem sjá ekki. Þetta var illa undirbúið, þetta var óundirbúið og þetta var bara enn ein tilraunin til að hækka skatta. Það er ekki hægt að flagga hverju sem er sem grænum sköttum sem eiga að ná fram grænum markmiðum ef menn vita ekkert til hvers þeir ætla að nota skattana og vita ekki hvaða áhrifum þeir ætla að ná fram með þeim. Auðvitað er hægt að fara í einhverjar yfirborðskenndar útskýringar en staðreyndin er sú að þetta var ekki hugsað til enda, en sem betur fer var horfið af þeirri braut. Ég vildi svo gjarnan að menn tækju sambærilegar ákvarðanir hvað hækkun kolefnisgjaldsins varðar núna og fleiri gjalda sem íslenskir skattgreiðendur fá á sig um áramótin.

Að því sögðu um græna skatta langar mig að koma örstutt inn á þróun fjárveitinga til samgangna og fjarskiptamála, málefnasvið 11 sem kallað er. Verið er að bæta við 3,9 milljörðum en eins og kemur fram í töflu á bls. 10 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er þetta fjárveiting sem er áætluð á fjárlögum 2020 og 2021 en fer síðan út aftur. Ég reikna með því að ný ríkisstjórn, þegar hún verður kosin, bæti úr því og setji framlögin aftur upp, a.m.k. til … (Gripið fram í.) — Tíminn líður furðu fljótt.

Þetta skot, þessi innspýting í samgönguhlutann í ár og á árinu 2021 samkvæmt áætlun skiptir máli en mér þykir leitt að segja að hún skiptir ekki öllu máli. Ef við horfum á það að núna er áætluð 3,9 milljarða sérstök fjárveiting þá er hún áætluð til vegamála og sannarlega er ekki feitan gölt að flá þegar kemur að fjárveitingum til vegamála í núverandi áætlun. En þarna virðist skautað fram hjá þörfinni á stórauknum framkvæmdum í flugvöllum, í innanlandskerfinu, og í hafnamálum. Mér segir svo hugur að í starfi umhverfis- og samgöngunefndar, þegar samgönguáætlun kemur þar inn, vonandi á næstu vikum, verði eitthvað horft til þess að hluti af þeim stabba verði bara af illri nauðsyn að fara til hafnarframkvæmda og framkvæmda við flugvelli. Ég held því að það sé óraunhæft að horfa til þess að innspýtingin í Vegagerðina sjálfa verði á þann hátt sem lagt er upp með, en þörfin er margföld miðað við það sem hér er tilgreint.

Í þeirri töflu sem ég vísaði til á bls. 10 í nefndarálitinu er ljóst að þróunin er jákvæð frá árinu 2011/2012. Staðreyndin er sú að þegar verið er að horfa til raunverulegra fjárfestinga frá þessum tímapunkti og þess viðhalds sem menn hafa treyst sér til að sinna þá hefur vantað mikið upp á allan þennan tíma. Við komum okkur í mikla viðhaldsskuld, svo að vægt sé til orða tekið, og fjárfesting í grunninnviðum hefur því miður setið á hakanum. Menn eru að koma frá mjög lágum núllpunkti og það er best fyrir okkur öll að nálgast þetta með það í huga því að það blasir við. Við erum enn þá að horfa á það t.d. að þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum eru tengdir grunnneti með malar-, jafnvel moldarvegum, ef hægt er að segja svo. Við erum enn þá að tala um að skilaboðin séu þau að það taki einhverja áratugi að klára Reykjanesbrautina, Suðurlandsveginn og Vesturlandsveginn norður fyrir Borgarnes. Það er gríðarlegt verk að vinna og með þeim upphæðum sem hér eru til ráðstöfunar vinnst það mjög hægt. En þetta er hlutur sem við förum betur í gegnum þegar kemur að samgönguáætlun. Án þess að ég hafi reiknað það treysti ég mér þó til að fullyrða að framlag til vegagerðar, hvort heldur sem er til viðhalds eða nýframkvæmda, á hvern ekinn kílómetra á þjóðvegakerfinu er mjög lágt og alveg sérstaklega lágt ef við horfum á árin 2006 og 2009/2010. Ég held að það blasi við að með allri þeirri auknu umferð ferðamanna á bílaleigubílum og því álagi sem sú umferð hefur sett á vegina með auknum flutningum náum við því miður ekki í skottið á okkur hvað viðhaldsþörfina varðar.

Mig langar aðeins til að koma aftur inn á kolefnisgjaldið, af því að það tengist gjaldtöku á umferð. Reiknað er með því að kolefnisgjaldið, þótt það sé auðvitað ekki alltaf umferð er drjúgur hluti þess þaðan, hækki um 360 millj. kr. á milli áranna 2019–2020. Á sama tíma er reiknað með því að olíugjald skili 500 milljónum hærri upphæð á árinu 2020 en 2019, fari úr 12,3 milljörðum í 12,6. Sú þróun, að teknu tilliti til hagvaxtarspár, bendir ekki til þess að þeir sem skrifuðu þessi fjárlög hafi neina trú á því að kolefnisgjaldið virki, enda er ekkert sem bendir til að kolefnisgjaldið virki.

Það er annað sem mig langar að benda á, aðrir umhverfisskattar. Það er á bls. 385 í fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Ég hef ekki kafað ofan í þessa tölu en hækkunin milli ára er um 50%, fer úr 4,8 milljörðum í 7,2. Þó að hlutverkunum væri snúið við væri áhugavert að fá útskýringar á þessu frá einhverjum fjárlaganefndarmanna í salnum. Sama á við um sértæka þjónustuskatta sem hækka um 39%, fara úr 6,6 milljörðum í 9,3. Allt er þetta undir því sönglagi að nú sé verið að lækka skatta, loksins, loksins.

Það er eitt atriði sem mig langar til að koma inn á áður en ég gleð hæstv. varaforseta Brynjar Níelsson óskaplega með því að fara að stytta ræðu mína. Í töflu 5 á bls. 387 í fjárlagafrumvarpinu er tilgreindur rekstrargrunnur útgjalda A-hluta ríkissjóðs eftir málefnasviðum. Þetta er bara til að minna á þær upphæðir sem varið er til málaflokksins fjölmiðlun. Þar fara útgjöld til fjölmiðlunar samkvæmt fjárlögum 2019, þegar upphæðin var 4.711 milljónir, í 5.315 milljónir. Ég verð að segja að á þeim tímum þar sem víða þarf að sýna aðhald þykir mér þetta býsna vel í lagt. Ég ætla ekki að koma með neinar sérstakar tillögur í þeim efnum núna en ég vildi halda þessu til haga.

Að endingu vil ég segja þó að skipið sé sennilega siglt í þeim efnum að það er ein breytingartillaga fjárlaganefndar sem ég held að mætti bæta verulega í til lækkunar ríkisútgjalda á næsta ári. Það er 3,6 milljarða lækkun til nýframkvæmdar Landspítalans á umferðareyjunni við Hringbraut. Ég er þeirrar skoðunar að skipið sé ekki siglt. Það væri skynsamlegt að stoppa þessa framkvæmd og byrja annars staðar á nýjum stað. Verkið yrði búið áður en þessar æfingar yrðu búnar við Hringbraut. Ég veit jafnframt að ég er í miklum minni hluta í þingsalnum hvað þá afstöðu varðar en það sem gengið hefur á hingað til ýtir undir þá afstöðu að sporin hræði og það er fátt sem bendir til þess að framvinda verksins verði á þann hátt sem ég held vissulega að allir hér inni voni. En eins og ég segi er fátt sem bendir til þess í augnablikinu.

Að því sögðu ætla ég að ljúka þessari ræðu minni.