150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú þegar er búið að reifa ansi margt í þessari ágætu umræðu um fjárlög og ég verð eiginlega viðurkenna að það er ákveðið andvaraleysi gagnvart þessari fjárlagaumræðu. Maður veltir því fyrir sér hvað valdi. Það eru náttúrlega margir búnir að tala um margt en nokkur atriði eru kjarni máls. Í fyrsta lagi er þetta bara ekki hrikalega vont fjárlagafrumvarp. Þetta er heldur ekkert neitt sérstaklega frábært fjárlagafrumvarp en við erum á miðju kjörtímabili. Við skiljum orðið hvernig þess ríkisstjórn virkar, bæði kosti og ókosti, og það er kannski lítil ástæða til annars en að benda bara á það sem gæti farið betur og bíða og vona að svigrúm skapist, kannski eftir næstu kosningar, til að bæta upp á það sem vantar. Það er endalaust hægt að tala um klassísku fjárlagaumræðuefnin, heilbrigðismálin, samgöngurnar o.fl., og það má auðvitað líka tala um tekjustofna, en í þágu þess að vera ekki að endurtaka um of margsagða og jafnvel augljósa hluti langar mig bara til að taka fyrir örfá umræðuefni og svo að lokum koma aðeins inn á eðli ríkisfjármála.

Ég ætla að byrja á nýsköpuninni. Framlag til rammaáætlunar ESB, um menntun, rannsóknir og tækniþróun, virðist hafa verið ofáætlað á einhverjum tímapunkti, að mér skilst úti í Brussel, en engu að síður ofáætlað upp á 787,9 millj. kr. Þetta skilst mér að hafi verið fært niður með leiðréttingu á frumvarpinu — ef einhver úr fjárlaganefnd er viðstaddur leiðréttir hann mig ef það er misskilningur hjá mér. En þetta var fært niður í stað þess að færa þetta fjármagn til. Það var búið að gera ráð fyrir þessu fjármagni, að það mundi nýtast í nýsköpunarmál og það er því, að mér finnst, frekar leiðinlegt að þetta skuli þá ekki nýtast í nýsköpunarmál. Þarna var tækifæri til að gera betur úr því að þarna var reikniskekkja á ferðinni. Oftast nær er kvartað undan því að það vanti meira fjármagn í þennan málaflokk en nú var það eiginlega þannig að þarna voru 787,9 milljónir sem hefðu getað nýst í þennan málaflokk en það er eins og það hafi vantað hugmyndaauðgi um hvernig mætti nýta þær. Það er synd vegna þess að okkur vantar meiri nýsköpun í þessu landi. Við erum rosalega dugleg við að monta okkur af því hvað nýsköpun sé mikil en engu að síður er raunsamdráttur í nýsköpunarmálum vegna þess að t.d. Tækniþróunarsjóður er ekki nógu vel fjármagnaður, vegna þess að Rannís klárar oft megnið af peningunum sínum snemma á árinu og er því ekki fært um að styðja allt það sem væri þess virði að styðja. Í ofanálag er ákveðin þrenging í gangi gagnvart þeim fyrirtækjum sem vilja fara út í mikla nýsköpun vegna þess að til að mynda stærsti einstaki styrkurinn sem er í boði hjá Rannís í dag er upp á 70 millj. kr. Sem er vissulega stór peningur en í stóra samhenginu er þetta ekki nóg til að koma fyrirtæki frá byrjun yfir á þann stað þar sem það getur farið að gera stóra hluti. Það er ákveðinn skortur almennt á fjárfestingarfé í íslensku hagkerfi sem margir hafa fjallað um. Þarna finnst mér tækifæri til að gera betur.

Ég held að til lengri tíma litið ættum við að íhuga til að mynda að íslenska ríkið er hluthafi í Asíska þróunarbankanum. Asíski þróunarbankinn er rosalega gott verkfæri til að ýta undir ýmiss konar framþróun í Suðaustur-Asíu. En af hverju er enginn íslenskur þróunarbanki til? Af hverju er ekki neinn sjóður sem beinlínis er ætlað að tryggja að fyrirtækin sem eru að byggja upp nýja tækni og nýjar hugmyndir geti fengið bæði lánsfé og fjárfestingar sem þau þurfa til að komast áfram í gegnum byrjunarskrefin? Þetta fyrirkomulag þekkist mjög víða um heim. Þetta er í raun ástæðan fyrir því að sum lönd hafa farið mjög mikið fram úr Íslandi. Auðvitað væri æskilegt ef þeir bankar, lífeyrissjóðir og aðrir stórir sjóðir sem til eru gætu verið að fjárfesta og lána í því magni sem þörf er á en það virðist ekki hafa gerst af náttúrulegum ástæðum og þá þurfum við að spyrja okkur: Hvað þarf að breytast til þess að það fari að ganga? Ég veit ekki hvert svarið er en hugsanlega er svarið að það vanti hreinlega bara einhvern mekanisma sem er beinlínis ætlaður til að gera þetta. Það gæti ýtt nýsköpunarmálum töluvert áfram.

En nýsköpun helst auðvitað í hendur við annan málaflokk sem mig langar að fjalla um og það eru menntamálin. Nú kom út skýrsla á dögunum frá framtíðarnefnd sem ég stýri og þar fjöllum við svolítið um fyrirbærið „sveigjanlega símenntun“. Það er sú hugmynd að við hættum að líta á menntun sem eitthvað sem við byrjum að gera snemma á lífsleiðinni og klárum svo einhvern tíma, yfirleitt upp úr tvítugu, og hættum svo að bæta við okkur. Það er ekki lengur tilfellið. Við erum flest mjög iðin við að bæta við okkur þekkingu, reynslu, hæfileikum og ekki síst starfsréttindum í gegnum alla lífsleiðina. Þetta er eitthvað sem eru í dag ákveðin sértilfelli í kerfinu. Það er ekki gert ráð fyrir því að símenntun sé á sama stalli og venjuleg eða hefðbundin menntun. Þetta gerir að verkum að sumir framhaldsskólar sem hafa verið duglegir við að bjóða upp á símenntunarmöguleika eru verr settir fyrir vikið. Sömuleiðis er aðgengi að háskólakerfinu í einhverjum tilfellum takmarkað. Það væri hægt að fara þá leið sem hefur verið farin á framhaldsskólastigi, að bjóða upp á það sem er kallað raunfærnimat en raunfærnimat er ekki enn þá til á háskólastigi og ég held að í einhverjum tilfellum komi það til af því að þó svo að allir séu af vilja gerðir til að búa til þetta fyrirkomulag er hreinlega bara lítið fjármagn til staðar til að fara að vinna í þessu og þetta mun kosta einhverja peninga.

Framhaldsskólar eru svo almennt margir hverjir illa fjármagnaðir og það virðist vera, án þess að ég geti fullyrt það með vissu, að reikniformúlan fyrir nemendaígildi skili skólum mjög mismiklum fjárhæðum, jafnvel fyrir mjög sambærilegt nám. Formúlan sjálf liggur ekki fyrir mér vitanlega. Það er ákveðið vandamál en ástæða er til að ætla að skólum á landsbyggðinni sé sérstaklega mismunað hvað þetta varðar og að einhverjum skólum sé jafnvel hyglað umfram aðra sérstaklega. Þarna þarf að kanna hvort þetta standist og laga það svo að skólar starfi á jafnræðisgrundvelli. Ef við ætlum að undirbyggja fyrir lengri framtíð þurfum við að átta okkur á því að þeir krakkar sem eru að byrja í skóla á þessu ári eru ekki að fara út á vinnumarkaðinn fyrr en upp 2040, jafnvel 2045 eða að nálgast 2050, eftir því hvað þeir verða langskólagengnir. Við höfum ekki hugmynd um það hvernig samfélagið verður árið 2045 en við getum reynt að tryggja að þeir sem koma út úr skólum á þeim tíma verði eins vel undirbúnir og hægt er, m.a. með því tryggja góðar fjárfestingar í menntamálum, með því að nýta það fjármagn sem fer í menntamálin betur. Það er nýleg athugasemd frá OECD hvað þetta varðar, að hugsanlega séum við ekki að fá jafn mikið út úr fjárframlögum í menntakerfið og við ættum að vera að gera miðað við samanburðarlönd. Í öllu falli er ákveðið vandamál hvernig fjármagnið virðist falla niður í menntageiranum. Hvatningarorð mín til ríkisstjórnarinnar í þessu máli eru hreinlega að huga að því að samræma kerfið, að gera þetta þannig að allir skólar standi jafn vel, að skólarnir geti allir boðið upp á fyrsta flokks menntun og að við hættum að ganga út frá því að fólk klári nám og verði þess í stað fært um að afla sér sveigjanlegrar símenntunar í gegnum alla lífsleiðina.

Svo aðeins um loftslagsmálin. Ég heyrði áðan á ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar að það var verið að gagnrýna svolítið umhverfisskatta og umhverfisgjöld, sem er auðvitað ákveðin firra. En mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því að koltvísýringslosun á ábyrgð Íslands er ekki alfa og omega vandans. Við erum á einni jörð, allt mannkynið, ef frá eru taldir þeir einstaklingar sem eru um borð í alþjóðageimstöðinni. Þessi eina jörð þarf að starfa saman að því að leysa þetta vandamál. Við berum ábyrgð á um 4 milljónum tonna CO2-ígildis á hverju ári, þ.e. íslenska ríkið með beinum hætti. Við erum að losa um 24 milljón tonn, plús/mínus einhver skekkjumörk. En Ísland er lítið land. Mannkynið sem heild losar rúmlega 1.000 milljarða tonna af koltvísýringi á ári. Það þarf að gera ansi margt til að ná að minnka þetta. Sumt af þessum 1.000 milljörðum tonna er í hringrás sem hægt er að viðhalda með úrbótum á landbúnaðaraðferðum og öðrum aðgerðum en megnið af þessu er komið til hreinlega vegna þess að við stundum stórfelldan bruna á kolvetniskeðjum sem hafa verið kyrrar í jarðvegi heimsins í milljónir ára.

Ég fór að velta því fyrir mér nýlega hvað það kosti, ekki bara Ísland heldur almennt, að taka milljarð tonna af koltvísýringi úr andrúmslofti. Það er ekki til neitt einfalt svar við því, enda mjög margar leiðir til. Það væri hægt að fara svipaða leið og CarbFix-verkefnið, að dæla koltvísýringi niður. Það virðist kosta um 5 milljarða dollara í því tilfelli. Við gætum farið að reyna að breyta þessu í eldsneyti og nýta það. Þá erum við að tala um jafnvel allt upp í 700 milljarða, sem er að vísu svipuð upphæð og var notuð til að bjarga bönkunum í Bandaríkjunum hér um árið, þ.e. TARP-verkefni Bandaríkjastjórnar. En svo væri hreinlega hægt að breyta neysluhegðun og ýmsu öðru. Það er ekkert eitt rétt svar. En eitt sem ég sé í þessu er að þegar Ísland nær að uppfylla skuldbindingar sínar — og ég vona að við náum því — er spurningin: Hvað ætlum við að gera næst? Hvað gerum við þegar við erum búin að uppfylla Parísarsáttmálann? Ef svarið er: Þá erum við bara búin og þá getum við hætt og öll hin löndin bara axla sína ábyrgð, þá erum við, held ég, að glata ákveðnu tækifæri vegna þess að öll þessi menntun og öll þessi nýsköpun sem ég var að tala um snýr hreinlega að því að útbúa möguleika á að geta sigrast á vandamálum heimsins, hvort sem það er skortur á aðgengi að fiski — við höfum byggt upp ágætisiðnað í kringum það — skortur á aðgengi á áli — við höfum byggt upp ágætisiðnað í kringum það — eða offramboð á koltvísýringi. Hvar er iðnaðurinn okkar í því? Af hverju erum við ekki að ganga út frá því að ein aðalútflutningsvara Íslands á næsta áratug verði tækni til að losa heiminn við offramboð á koltvísýringi? Þetta væri eitt af því sem við gætum gert. Ef við gerum þetta vel, ef við erum með nógu öfluga nýsköpunarstefnu núna, gæti þetta skilað okkur verulegum ábata fjárhagslega sem og þeim ómælanlega kosti að hugsanlega muni mannkynið ekki upplifa stórfelldan skaða vegna loftslagsbreytinga. Þetta er bara svona smátillaga. Vonandi skilar hún sér eitthvert.

En aðeins um hlutverk skatta og ríkisfjármálin almennt, svo að maður skipti aðeins um gír. Mér finnst nefnilega vera orðin ærin ástæða til að ræða það hvernig við fjármögnum samfélag og hvernig við fjármögnum ríkissjóð. Hvaðan koma peningar? Í þessu samhengi skiptir máli að gæta að ákveðnu samhengi. Nú hefur verið við lýði ákveðin hugmyndafræði í hagstjórn í heiminum í marga áratugi og ég fór að velta því fyrir mér um daginn hvernig seinni heimsstyrjöldin hefði farið ef Bandaríkjamenn hefðu keyrt hagkerfi sitt á þeim tíma eftir þeim hugmyndum í ríkisrekstri sem eru ríkjandi í dag. Ég held að við getum sagt nokkuð örugglega að bandamenn hefðu tapað stríðinu vegna þess að ein af grunnforsendunum er að það séu alltaf takmarkanir á útgjöldum ríkissjóðs í hverju tilfelli og að það sé réttlætt með því að það eigi að reyna að koma í veg fyrir að gengið sé of nærri einkageiranum. Þetta hljómar fyrir mér eins og núllsummuleikur þar sem gengið er út frá því að til þess að einhver geti grætt þurfi einhver annar að tapa. En hagkerfi Íslands og hagkerfi annarra landa eru ekki núllsummuleikir og þaðan af síður þegar við tölum um öll alþjóðaviðskiptin sem eiga sér stað þar á milli.

Það vill þannig til að æðsta takmörkun á því hvað ríki getur eytt miklu af peningum er ekki háð því hvað þau geta búið til mikið af peningum eða hvað þau geta sett mikið af fjármagni í umferð í gegnum fjárlögin sín heldur er það eingöngu framleiðni og framleiðslugeta samfélagsins sem liggur þar að baki. Fyrir hverja krónu sem ríkissjóður eyðir er einhver kennari, einhver hjúkrunarfræðingur, einhver einhvers staðar í kerfinu að leggja vegi, byggja brýr, mennta börn, gera eitthvað gagnlegt fyrir hagkerfið. Í mjög mörgum tilfellum eru það einkafyrirtæki sem eru að taka við þessu fjármagni og setja það svo aftur í umferð með ýmsu móti. Svo eru einstaklingar sem taka við peningum í formi launa og setja þá aftur í umferð og smám saman fer þetta út á gagnlegan hátt til að keyra hagkerfið áfram. Af þessu leiðir að íhaldssama viðhorfið, að reyna að takmarka útgjöld ríkissjóðs vegna hugmynda um að ríkið eigi helst ekki að eyða neinu, er í mörgum tilfellum að grafa undan framleiðni í samfélaginu og arðsemi í einkageiranum. Á kostnað hvers? Jú, þetta kemur niður á einum mikilvægasta þættinum sem er heildarframleiðslugeta samfélagsins. Hver er hún? Við höfum mælikvarða á það, það er kallað framleiðsluspenna. Vissulega viljum við ekki að framleiðsluspennan sé alltaf í toppi vegna þess að það hefur ákveðnar neikvæðar afleiðingar í för með sér líka. Að sama skapi er ekki þar með sagt að við eigum alltaf að vera á einhverju útgjaldafylliríi að gamni. Við eigum auðvitað að fara mjög vel með fjármuni ríkissjóðs og almennt að eyða í hluti sem skila okkur miklu fyrir samfélagið. En það væri til bóta ef úreltar hagfræðikenningar myndu víkja fyrir þeim sem nýrri eru og að hagstjórn væri sinnt í samræmi við hugmyndir um framleiðni og framleiðslugetu. Þetta var gert í seinni heimsstyrjöldinni og þetta var bókstaflega sú leið sem Bandaríkin notuðu til að sigra í seinni heimsstyrjöldinni vegna þess að þeir áttuðu sig á því að það sem þeir þurftu umfram allt annað var að koma öllum í vinnu við að búa til það sem þurfti til þess að vinna stríðið sem við stóðum frammi fyrir á þeim tíma.

Mannkynið stendur nú frammi fyrir öðru stríði en þetta er ekki stríð við neitt land heldur er þetta í raun stríð við okkar eigin skammsýni, stríð við það að við höfum verið að losa út í andrúmsloftið 1.000 milljarða tonna af CO2 í langan tíma og við virðumst vera að gefa í. Þannig að ef við myndum fara að beina hagkerfinu í þá átt að leysa þetta vandamál er búið að margsýna fram á að það yrði mikill efnahagslegur ávinningur fyrir okkur. Af þeim hagfræðikenningum að dæma sem eru nýrri og virðast vera í meira samræmi við það hvernig hlutirnir virka er hægt að ganga út frá því sem vísu að hugsanlega mætti fara að stilla útgjöld ríkissjóðs af með það í huga að ná fram ákveðinni framleiðsluspennu og viðhalda henni sem þýðir lítið atvinnuleysi. Það væri hægt að segja: Við viljum ekki neitt atvinnuleysi nema það sem er kannski kerfislægt, þ.e. fólk sem á einhverra hluta vegna erfitt með vinnu — og það væri líka hægt að leysa það vandamál. Þetta er hægt vegna þess að við skiljum nútímahagfræði.

Til að setja þetta allt í samhengi er ég kannski fyrst og fremst að gagnrýna það að þessi fjárlög, eins og fjárlög síðustu áratuga, viðhalda einhvers konar kyrrstöðupunkti gagnvart samfélaginu. Og það sem verra er: Þessi kyrrstöðupunktur hefur smám saman verið að grafa undan samfélagslegum stoðum í langan tíma. Það birtist í því að skólar eru verr fjármagnaðir en þeir voru fyrir löngu, ef maður fer nógu langt aftur; í því að það er að verða sífellt sjaldgæfara að sveitarfélög geti staðið undir ákveðnum væntingum íbúa sinna; að það er hreinlega erfiðara að gera hluti sem þóttu bara fullkomlega eðlilegir í kringum 1960 eða 1970. Ég er ekki að segja að við þurfum endilega alltaf að fara í það horf vegna þess að það var margt að samfélaginu þá líka. En kannski ættum við að staldra við og spyrja okkur: Af hverju getum við gert færri hluti af ákveðnum toga núna, þrátt fyrir að við séum vissulega að gera meira af öðrum toga? Er eitthvað sem við höfum gert sjálfum okkur með því að festast í einhvers konar ranghugmyndum um hvernig ríkisfjármál virki í raun? Getum við, kannski með því að uppfræða sjálf okkur, með því að skoða aðeins fyrri hugmyndir, með því að ýta jafnvel verri hugmyndum til hliðar, náð betri samfélagslegum niðurstöðum fyrir alla, ásamt því kannski í leiðinni að ná að leysa stærsta vandamál samtímans? Ég held að þetta sé hægt og ég hvet alla sem hafa tök á því að hafa áhrif á niðurstöður í því máli til að reyna að breyta því — alla vega á næsta ári ef það er ekki hægt núna.