150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Breytingartillögur Samfylkingarinnar hafa verið mjög vel kynntar í umræðunni af hv. þingmanni og fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, Ágústi Ólafi Ágústssyni. Hann hefur einnig farið vel yfir gagnrýni Samfylkingarinnar á frumvarpið um leið og hann hefur kynnt breytingartillögurnar. Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Logi Einarsson, hefur einnig fjallað um þær og formaður velferðarnefndar, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir. Það er því óþarfi að ég endurtaki upptalningu nákvæmlega á öllum okkar tillögum eða umfjöllun um frumvarpið yfir höfuð eins og gert hefur verið af hálfu fulltrúa Samfylkingarinnar.

Breytingartillögur okkar snúa helst að menntun, heilbrigðismálum, kjörum, nýsköpun og loftslagsmálum. En ég vil samt ræða stuttlega um skatta og tekjuöflun áður en ég ræði um þjónustu ríkisins við Suðurnesjamenn og sinnuleysi stjórnvalda um þann landshluta.

Mér sýnist ríkisstjórnin vilja frekar keyra ríkissjóð í halla og þrengja að velferðinni en að nýta skattkerfið með sanngjörnum hætti. Skattkerfið þjónar tveimur mjög mikilvægum hlutverkum, annars vegar að afla tekna til að standa undir velferðarsamfélaginu og fjármagna innviði og hins vegar til að vinna gegn ójöfnuði. Eignaójöfnuður er að aukast mjög hratt hér á landi og það sýna tölur sem m.a. fjármálaráðherra hefur gefið upp í svari við fyrirspurn frá formanni Samfylkingarinnar. Ríkisstjórnin gerir lítið sem ekkert til að slá á þá þróun heldur ýtir þvert á móti undir hana. Til að nefna dæmi um þróunina fór rúmur helmingur allra fjármagnstekna sem urðu til á Íslandi í fyrra til ríkustu 5% landsmanna. En við í Samfylkingunni viljum jafna leikinn. Auðlindagjöld í formi veiðigjalda standa ekki undir kostnaði ríkisins af rannsóknum og eftirliti með fiskveiðiauðlindinni ef tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun veiðigjalds enn frekar en þau hafa þegar gert ná fram að ganga. Veiðigjaldið var 11,2 milljarðar þegar ríkisstjórnin tók við völdum og nú leggur hún til að það fari í 5 milljarða á árinu 2020. Stjórnarliðar samþykktu tillögu hæstv. sjávarútvegsráðherra að reikniverki í fyrra sem við í Samfylkingunni gagnrýndum harðlega, enda hefur komið í ljós að reikniverkið er til mikilla hagsbóta fyrir kvóta stærstu útgerðanna, líkt og Samherja, en ekki fyrir eigendur auðlindarinnar sem er íslenska þjóðin. Veiðigjaldið verður samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar alls 5 milljarðar á næsta ári, eins og ég sagði áðan. Til að setja þessar tölur í samhengi var hagnaður útgerðarfyrirtækja 27 milljarðar kr. í fyrra og arðgreiðslur út úr þeim 12,3 milljarðar. En hins vegar var kostnaður ríkisins vegna rannsókna og eftirlits 5,1 milljarður.

Við í Samfylkingunni viljum hækka fjármagnstekjuskattinn. Hann er hér á landi sá lægsti á öllum Norðurlöndunum og við viljum hverfa frá hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að verja fjármagnseigendur fyrir verðbólgu og breyta skattinum þannig að venjulegir sparifjáreigendur þurfi ekki að greiða fjármagnstekjuskatt en hinir sem eiga allra mest greiði sinn sanngjarna skerf. Við viljum setja á stóreignaskatt sem leggst á eignir aðrar en íbúðarhúsnæði og þá bæði til að afla tekna en ekki síst til þess að jafna stöðuna.

Við viljum herða skatteftirlit, sér í lagi vegna skattaskjóla og skilvirkari meðferð slíkra mála mun skila árangri. Talið er að nú nemi skattsvikin í það minnsta 100 milljörðum kr. á ári. Það er því eftir miklu að slægjast. Því miður hafa eftirlitsstofnanir okkar ekki fengið nægilegt fjármagn til að sinna þessu eftirliti. Ef við tökum skattrannsóknarstjóra sérstaklega þá er ákveðinn tvíverknaður í gangi í kerfinu. Ef við myndum breyta lögunum þannig að skattrannsóknarstjóri gæti verið saksóknari líka þá þyrfti ekki að endurtaka rannsóknir þeirra með þeim afleiðingum sem við höfum horft upp á, að allt of langur tími líður þar til niðurstaða fæst og mál falla niður fyrir vikið. Ef við myndum breyta þessu strax myndum við taka þann tvíverknað út úr kerfinu og auka skilvirknina.

Við mælum með hærri kolefnisgjöldum til að vinna gegn loftslagsvá en við viljum að þau verði útfærð í samvinnu við verkalýðsfélögin og reyndar tölum við fyrir því að allar þær aðgerðir sem við þurfum að fara í á næstu árum verði ákveðnar í samtali við verkalýðsfélögin þannig að gætt sé að jöfnun og sanngirni í þeim aðgerðum öllum, sem verða óumflýjanlegar.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni viljum að jöfnunin sé tekin í gegnum þrepaskipt tekjuskattskerfi en að stefnt sé að því að millifærslurnar, eins og barnabætur og vaxtabætur verði ekki tekjuskertar. Húsnæðisbæturnar eru mjög einkennilega samsettar í fjárlagafrumvarpinu og búið er hreinlega að eyðileggja vaxtabótakerfið algjörlega með því að breyta ekki viðmiðunartölum svo heitið geti í næstum því áratug, og þá þrengir sjálfkrafa að kerfinu. Samkvæmt umsögnum frá ASÍ hafa 27.000 fjölskyldur farið út úr vaxtabótakerfinu frá árinu 2013. Svipaða sögu er að segja með barnabæturnar. Þar hefur að vísu verið bætt í en tekjuskerðingar eru mjög grimmar þannig að þær virka ekki eins og þær virka á öðrum Norðurlöndunum þar sem barnabæturnar eru til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Við viljum breyta því kerfi og nýta jöfnunartækin sem ríkið hefur. Það er dagljóst að í samfélögum þar sem jöfnuður er mikill eru menn sáttari og þar er heilsan jafnvel betri og traust á milli manna er meira. Eftirsóknarvert er að stefna þangað og við eigum að horfa til hinna norrænu ríkjanna þegar við viljum breyta skattkerfi okkar og bótakerfum, en ekki til vesturs eða leita eftir fyrirmyndum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Herra forseti. Þetta var aðeins um tekjuöflunarleiðirnar sem við teljum vel færar og standa meira en undir breytingartillögum okkar við fjárlagafrumvarpið.

Nú vil ég ræða aðeins um Suðurnesin og hvernig staðan er þar. 19. júní sl. var samþykkt á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum ályktun sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesjum og fimm sérfræðinga úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að vinna tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar. Meðal þess sem hópurinn skal leggja til grundvallar aðgerðaáætluninni er mat á:

a. samfélagslegum áhrifum fólksfjölgunar á svæðinu,

b. samsetningu íbúa og mismunandi þörfum þeirra með tilliti til stöðu, aldurs, móðurmáls o.fl.,

c. hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun byggðamála og fólksfjölgun,

d. áhrifum niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á svæðinu.

Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. desember 2019. Forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“

Tillagan var samþykkt 19. júní. Skemmst er frá því að segja að þessi starfshópur hefur ekki hist enn þá. Það er að vísu búið að skipa hann en ekki hefur verið haldinn einn einasti fundur og við erum að nálgast miðjan nóvember. Ég túlka það sem svo, herra forseti, að ekki sé mikill áhugi á því að líta sérstaklega til Suðurnesja. Framkvæmdarvaldið dregur lappirnar við að framfylgja því sem Alþingi hefur þó samþykkt. Staðreyndin er hins vegar sú að Suðurnesjamönnum hefur fjölgað frá október 2014 til október 2019 um 30,8%, þ.e. milli 6.000 og 7.000 manns. En fjárframlög hafa ekki fylgt þeirri fjölgun. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn, hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni og hv. stjórnarþingmenn, haldi að þessi fjölgun hafi ekkert að segja, að fólkið sem hefur flust á Suðurnesin verði ekki veikt, slasist ekki eins og aðrir landsmenn o.s.frv. og þurfi ekki á menntun að halda eða símenntun, eða löggæslu, að ekki þurfi að auka við hana eða bæta í almenningssamgöngur.

Herra forseti. Við Suðurnesjamenn getum ekki sætt okkur lengur við þetta. Er einhver hér inni sem lætur sér detta það í hug að rúmlega 30% fjölgun á fimm ára tímabili hafi engin áhrif á samfélagið og ríkið þurfi ekki að bregðast við? Nei. Það sem stjórnarliðar hafa samþykkt í fjárlögum undanfarið er miðað við fólksfjölgun upp á 1% á ári þegar peningarnir eru ákvarðaðir til að standa undir þjónustu við íbúana, af því að það er einhver meðalfjölgun á öllu landinu og er ekkert litið sérstaklega til svæðis sem vex með slíkum hætti.

Stóraukin fjárframlög vantar í heilbrigðisþjónustuna, hún er bókstaflega fjársvelt á þessu svæði. Lögreglan er líka fjársvelt og menntastofnanirnar. Sömu sögu er að segja um almenningssamgöngur og reyndar hafa sveitarfélögin á Suðurnesjum staðið í málaferlum og stappi við ríkisvaldið vegna þeirra.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fjárlagafrumvarpið í þessari umræðu. Mér fannst mjög mikilvægt að koma hingað upp til að benda sérstaklega á stöðu Suðurnesja þar sem fjölgunin hefur verið langmest á landsvísu. En það er þó eitt sem vert er að nefna áður en ég lýk máli mínu. Það er ekki bara það að þessi staða sé uppi, þ.e. sú gífurlega fjölgun sem reynt hefur á innviðina á Suðurnesjum, heldur er atvinnuleysið þar líka mest á landinu. Núna stendur atvinnuleysið í Reykjanesbæ upp á 6,5%, í Suðurnesjabæ 6,4% og í Vogunum upp á rúmlega 5%. Minnsta atvinnuleysið er í Grindavík upp á 2,7%. Þessar tölur eru svona á Suðurnesjunum á meðan atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu öllu er 3,8% og undir 3% ef horft er á landsbyggðinni sérstaklega. Auk þess er íbúasamsetningin sérstök á Suðurnesjum þar sem um 25% íbúanna eru af erlendu bergi brotin. Það er samsetning íbúanna, það er gífurleg íbúafjölgun, það er atvinnuleysi og síðan skortur á þjónustu við fólkið sem er afskaplega bágborin. Við getum auðvitað notað alls konar orð yfir þetta.

Þolinmæði Suðurnesjamanna er algjörlega á þrotum. Það sýður á mönnum. Fólk gerði sér vonir um að kannski yrðu breytingar á milli umræðna um fjárlagafrumvarpið.

Búið er að viðurkenna að horfa þarf sérstaklega á svæðið með þingsályktunartillögunni en ekki er gert ráð fyrir að koma til móts við stöðuna, hvorki varðandi íbúafjölgun né þunga samsetningu svæðisins. Þetta finnst mér, herra forseti, vera hneyksli.