150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ágæti þingheimur. Ríkisstjórnin kom með þá tillögu, eða meiri hluti fjárlaganefndar, að auka við um 45 milljónir til héraðssaksóknara vegna peningaþvættismála. Við lentum á gráa listanum, munið þið, og það var skilyrði til þess að losna af honum að við myndum fjölga starfsmönnum um þrjá. Þessir þrír starfsmenn sem nú eiga að fara til héraðssaksóknara mega ekki taka að sér önnur mál þar innan húss, mega eingöngu vera í peningaþvættismálum og engu öðru, t.d. ekki rannsókn á mútugreiðslum á suðrænum slóðum. Embætti héraðssaksóknara verður að fá frekari fjármuni til að geta sinnt öllum þeim fjölmörgu störfum sem héraðssaksóknari á að sinna, m.a. rannsókn skattalagabrota sem eru í mjög þröngum tímaramma. Þess vegna leggjum við til aukna fjármuni þar og treystum því að stjórnarþingmenn styðji tillögur okkar.