150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til þess að koma hér og tjá mig um 400 milljónir til einkarekinna fjölmiðla. Ég get tekið undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og mun styðja þessa tillögu, sé að hún mun falla og þá okkar tillaga líka en við í Flokki fólksins erum með sambærilega tillögu. Í ljósi þess sem á undan er gengið held ég að það væri kannski bragur á því að við segðum að það skipti máli að vera með öfluga fjölmiðla. Það skiptir máli að vera með rannsóknarblaðamennsku og að fjölmiðlar hafi fjármagn til að rannsaka hlutina. Stærstu mál sem við höfum fengið upp á yfirborðið á undanförnum árum koma frá fjölmiðlum. Það væri bragur á því, virðulegi forseti, að við myndum útfæra það betur eins og ég hafði hugsað mér að gera, og verja þessum fjármunum á betri veg en þann að setja þá í einkarekna fjölmiðla og koma þeim undir ríkisspenann. Ef við viljum efla þá tökum við ríkisrekna fjölmiðilinn einfaldlega af auglýsingamarkaði og komum með alvörusamkeppni þar.