150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir boðaða og margumrædda stórsókn í menntamálum sér hennar ekki nægilega stað í þessu frumvarpi. Samfylkingin er hér með tillögur til úrbóta á því, þ.e. að háskólastigið fái stóraukið framlag til að ná þeim markmiðum sem við höfum öll stefnt að og eru kennd við OECD. Ég vil líka nefna alveg sérstaklega í þessu sambandi að Listaháskóli Íslands býr við hraksmánarlegt húsnæði sem þarf að ráða bót á hið fyrsta. Verði þessi tillaga Samfylkingarinnar samþykkt, sem ég hef vissar vonir um, gæti hugsanlega komið til þess að ráðin verði bót á því ástandi.