150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:21]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ætla ég að taka undir lið 22.20, Framhaldsfræðslu og menntun óflokkuð á skólastig. Það er nefnilega þannig að við getum ekki öll flokkað okkur niður á þessi hefðbundnu skólastig. Hér er um að ræða styrki eins og til Lýðskólans á Flateyri, mikilvægrar stofnunar sem var komið á fót á síðasta ári og hefur verið mjög gleðilegt að fylgjast með því hvernig það hefur gengið og voru umsóknir í þann skóla langt umfram það sem var tekið inn. En hér er líka verið að styrkja Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, LungA á Seyðisfirði og framlag til símenntunar í Austurbrú fyrir austan. Þetta er mjög ánægjulegt því að við getum ekki öll flokkað okkur í þau kerfi sem við heyrum hefðbundið til.