150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Landspítali – háskólasjúkrahús og Sjúkrahúsið á Akureyri eru í kröggum vegna þess að þar fást ekki nægir peningar frá stjórnvöldum til að reka lögbundna þjónustu. Landspítali – háskólasjúkrahús getur hins vegar ekki vísað fólki frá eins og aðrar heilbrigðisstofnanir þurfa að gera þannig að ég tek undir orð hæstv. fjármálaráðherra, það er eitthvað að þessu kerfi. Kerfið virkar ekki eins og ríkisstjórnin vill. Kerfið virkar ekki vegna þess að ríkisstjórnin lætur ekki næga peninga í heilbrigðisstofnanir úti um allt land þannig að allt endar inni á gólfi á Landspítala þar sem eru yfirfullar deildir, þar sem gamalt fólk liggur á ganginum á bráðamóttökunni í Fossvogi, þar sem ekki er hægt að útskrifa fólk vegna þess að það vantar hjúkrunarfræðinga á aðrar deildir, vegna þess að það er ekki hægt að halda deildum opnum vegna skorts á fjármunum og mannafla. Þess vegna leggjum við til viðbótarfjármagn í Landspítala – háskólasjúkrahús og Sjúkrahúsið á Akureyri.