150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Það er fíkniefnafaraldur á Íslandi í dag. Við höfum aldrei staðið andspænis annarri eins áskorun og akkúrat nú. Það eru 800 einstaklingar sem bíða eftir fyrstu þjónustu inn á Sjúkrahúsið Vog. Það er okkar skylda að viðurkenna fíkn sem sjúkdóm. Það er okkar skylda að veita fólki fyrstu hjálp þegar það biður um hana og þarf á henni að halda. Ég er að óska eftir 400 millj. kr. aukafjárveitingu til SÁÁ og sérstaklega með tilliti til þess að ná niður þessum biðlistum, koma fólkinu okkar aftur út í samfélagið, veita því von, veita því stuðning og þurrka út alla fordóma gagnvart sjúkdómnum eins og mér finnst því miður oft og tíðum hafa verið hér á lofti.