150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hagsmunatengsl.

[15:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp við mig sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. Ég þakka henni kærlega fyrir að rifja upp óheppileg ummæli sem ég viðhafði úti á tröppum og þarf síðan að lifa með. Ég vona að hv. þingmaður hafi aldrei lent í því að láta eitthvað detta út úr sér sem síðan lifir endalaust. Svoleiðis er bara lífið.

Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu að okkur er dálítið umhugað um hagsmunatengsl. Það er gott, við eigum stöðugt að velta fyrir okkur hvernig við séum frjáls að því að hugsa og tala og að við þingmenn og ráðherrar getum tekið ákvarðanir án þess að til komi óeðlileg hagsmunatengsl. Í svona litlu landi er hins vegar óhjákvæmilegt að við þekkjumst ansi mörg. Við erum tengd fjölskyldu- eða vinaböndum, erum skólafélagar og eitthvað slíkt, og slík mál geta orðið flóknari fyrir okkur. Ég hef tekið eftir því í stærri löndum, sem jafnvel telja þúsund sinnum fleiri íbúa en hér eru, að þar virðast menn ekki finna fólk til að gegna stöðu forseta öðruvísi en að það séu hjón, feðgar eða slíkt. Það er alvanalegt á Norðurlöndunum, sem við berum okkur saman við, að þar séu slík ættartengsl í gangi.

Um þá spurningu sem hv. þingmaður varpar hér upp og ég á að fara að meta get ég sagt: Ég þarf fyrir mína parta að meta þessa spurningu á hverjum degi. Ég býst við að hv. þingmaður þurfi líka að gera það. Nákvæmlega það sama gildir til að mynda um kjörna fulltrúa á Norðurlöndum sem við gjarnan berum okkur saman við sem eru þó talsvert fjölmennari. Vandi okkar hér heima getur orðið flóknari þar sem við erum svo fá og miklu tengdari hvert öðru en þar gerist. Ég vil fyrst og fremst segja (Forseti hringir.) að við þurfum á hverjum tíma að velta þessari spurningu fyrir okkur. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur gert það og svarað fyrir sína parta. Hann þarf að meta sitt hæfi alveg eins og við hv. þingmaður þurfum að meta okkar.