150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hagsmunatengsl.

[15:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður vill fá svör við spurningu um hvað mér finnst um þetta eða hitt þá verður hv. þingmaður líka hlusta á það þegar ég er að útskýra fyrir henni og um leið öllum þingheimi að á hverjum degi þurfum við sem gegnum slíkum störfum, hvort sem við erum kjörnir fulltrúar sem þingmenn, sveitarstjórnarmenn, hvað þá ráðherrar sem hluti af framkvæmdarvaldinu, að meta okkar eigin hæfi. Í stjórnskipun á Íslandi er það þannig að við þurfum að meta það sjálf. (Gripið fram í.) Hæstv. sjávarútvegsráðherra mat hæfi sitt sjálfur. Það er hann sem þarf að svara fyrir það. Ég þarf ekki að svara um það hvað mér finnst, hann hefur útskýrt það. (Gripið fram í.) Hann hefur útskýrt það, hv. þingmaður, ef þú vilt hlusta, fyrir þér, held ég, eða hvort það var fyrir hv. þm. Halldóru Mogensen — afsakaðu, herra forseti, að ég skyldi ekki beina orðum til hæstv. forseta — að þetta snúist um það að við séum síðan hér til kjörs á fjögurra ára fresti í það minnsta og þar séum við dæmd af verkum okkar. (Forseti hringir.) En á hverjum degi þurfum við sjálf að dæma um hæfni okkar og hugsanlegt vanhæfi.