150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er einfalt: Já. Það er ekki flóknara. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki skoðað breytingartillögur Pírata í 2. umr. þar sem við lögðum m.a. til að lækka skatta með hækkun og útgreiðslu persónuafsláttar. Stefnan er t.d. þar, almennt séð, og þetta er sama spurning og ég svaraði einmitt í andsvari í 2. umr. Við leggjum áherslu á fagleg vinnubrögð þar sem kjarninn hjá okkur er borgararéttindi, tjáningarfrelsi, gagnsæi, beint lýðræði. Það eru okkar ær og kýr þegar allt kemur til alls, í þessum einföldu málum en þó grundvallarmálum. Þau endurspeglast kannski ekkert rosalega mikið í fjárlögunum á hverju ári en þau gera það í þessum fjárlögum, í breytingartillögunum í 2. umr. þar sem var lögð til skattalækkun sem passar við þá hagsveiflu sem er í gangi og þar sem réttindi öryrkja voru t.d. tryggð, þar sem er verið að taka af þeim aura núna fyrir hverja krónu sem þeir vinna sér inn. Þar er réttindabarátta. Það endurspeglast í fjárlögum okkar og fjárheimildum. Þess vegna gagnrýni ég gagnsæisskort í þessum fjárlögum, því að án gagnsæisins getur ráðherra gert hvað sem er og við erum á móti því að ráðherra geti gert hvað sem er.