150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:22]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það sem ég sagði og stend við er að þetta hefði ekkert með markvissa efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að gera. Það sem ríkisstjórnin gerði einfaldlega þegar í ógöngur var komið, þegar búið var að spenna bogann svo hátt í ríkisútgjöldunum að afkomumarkmið fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar héldu engan veginn lengur, var að skapa svigrúm með því að breyta afkomumarkmiðum. Hún breytti engu í útgjaldaáformum sínum í raun. Það voru áfram þau áform sem þegar höfðu verið sett fram í fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar, fjármálaáætlun sem var sett fram undir þeirri gagnrýni að hún væri byggð á allt of bjartsýnum forsendum og væri mjög þensluhvetjandi á viðkvæmum tímapunkti á fyrstu árunum. Það er ágætt að hafa í huga, því að ríkisstjórnin hefur verið mjög dugleg að hæla sér núna fyrir jákvæðar umsagnir, að umsagnirnar voru ekki svona jákvæðar á árinu 2018 og vegna fjárlagavinnunnar fyrir árið 2019. Það var einmitt verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir óvarfærni í þessum efnum. Það hefði verið æskilegt að fara varlegar í útgjaldaaukningu á fyrstu tveimur árum þessarar ríkisstjórnar til að eitthvert svigrúm hefði verið skilið eftir til raunverulegrar innspýtingar í opinberri fjárfestingu þegar þessi kólnun varð, sú niðursveifla sem við erum að fara í gegnum núna. Hún var algjörlega fyrirsjáanleg og fjölmargir umsagnaraðilar hafa ítrekað varað við henni í gegnum alla fjármálaáætlunar- og fjárlagavinnu þessarar ríkisstjórnar það sem af er þessu kjörtímabili. Þetta svigrúm er ekki til staðar sem leiðir hugann að því hvernig við eigum síðan að meðhöndla opinbera fjárfestingu almennt í uppgjöri ríkissjóðs sem er nokkuð sem við höfum rætt áður í þessum sal og ég vona að við tökum áfram inn í fjárlaganefnd. En það breytir því ekki að þetta svigrúm sem hefði verið svo mikilvægt að hafa til þess að spýta myndarlega í við opinberar fjárfestingar á þessum tíma (Forseti hringir.) er einfaldlega ekki fyrir hendi vegna óábyrgrar efnahagsstjórnar þessarar stjórnar.