150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða næstsíðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar og myndin er orðin býsna skýr. Það er einkum tvennt sem blasir við. Í fyrsta lagi að sú tilraun að tefla saman tveimur eðlisólíkum flokkum er ávísun á kyrrstöðu sem stafar annaðhvort af tómum málamiðlunum eða fullkomnu hugmyndaleysi, nema hvort tveggja sé. Ríkisstjórnin, sú sama og hefur gert sig talsvert breiða með því að tala um aðkomu sína að lífskjarasamningunum, ætlar því fólki sem hún greiðir laun talsvert minna en samið var um í almennum kjarasamningum í vor. Þannig fá aldraðir og öryrkjar aðeins 3,5% hækkun og enn þá breikkar bilið milli lægstu launataxta og þessa fólks. Það mun verða 78.000 kr. þann 1. apríl 2020, ef ég skil þetta rétt. Þá eru kjör þeirra meira að segja undir atvinnuleysisbótum sem eru hugsaðar sem tímabundið úrræði fólks. Þá gerir frumvarpið aðeins ráð fyrir að hækkun opinberra starfsmanna verði um 3% sem er talsvert undir því sem samið var um á almenna markaðnum og óvíst að hækkunin haldi í við verðbólgu og gæti því leitt til launalækkunar. Verði hins vegar samið um hærri laun skal því mætt með aðhaldi innan málaflokksins og það kemur þá niður á þjónustu við almenning. Það gildir raunar um skattalækkunina líka samkvæmt umsögn BSRB, með leyfi forseta:

„Helstu áherslur frumvarpsins varða lækkun tekjuskatts á einstaklinga sem mæta á með auknu aðhaldi og niðurskurði í útgjöldum ríkisins auk kaupmáttarrýrnunar launa ríkisstarfsmanna.“

Þessari stöðu höfum við í Samfylkingunni og fjölmargir umsagnaraðilar varað við að gæti gerst á síðustu þingum, að fyrst þeirri stefnu var fylgt að gefa eftir tekjustofna á fordæmalausum uppgangstímum síðustu ára og liggja í stað þess á meltunni og éta bara af forðanum gæti velferðarkerfið þurft að bera þungann af niðursveiflunni sem var óhjákvæmilegt að kæmi fyrr eða síðar. Við erum stödd nákvæmlega þar í dag. Mig minnir reyndar að Vinstri græn hafi verið fullkomlega samhljóða okkur í þeirri gagnrýni.

Vissulega er róðurinn þyngri núna þegar hagkerfið er tekið að kólna. Á því fordæmalitla hagvaxtarskeiði sem ég talaði um áðan var nefnilega heldur ekkert hirt um að jafna leikinn í samfélaginu, sem gerir stöðuna miklu viðkvæmari en ella, sérstaklega fyrir þau sem skilin voru eftir. En það væri þó enn þá hægt að rétta þessa stöðu með réttum stjórnvöldum og auðvitað nauðsynlegt að gera það. Við erum þrátt fyrir allt 11. ríkasta land í heimi og við eigum hvert Evrópumetið og hvert heimsmetið á fætur öðru í góðu meðaltali. En nú er kannski kominn tími til að hætta að horfa á þau og fara að horfa lengra og á stöðu einstakra hópa, hvernig gæðin skiptast milli einstaklinga, aldurshópa, fyrirtækja, og jafnvel landshluta, ef út í það er farið. Við eigum vannýtta tekjustofna sem geta rétt þetta við án þess að við göngum nærri nokkrum einasta manni í samfélaginu. Við getum ráðist í kerfisumbætur til að koma í veg fyrir að auður safnist á færri og færri hendur.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talaði áðan um að verið væri að viðhalda skattstefnu vinstri stjórnarinnar 2009–2013. Þetta er í grundvallaratriðum rangt. Stjórnin 2013–2016 kollvarpaði því kerfi. Hún tók milliþrepið úr þriggja þrepa kerfinu. Hún lagði af auðlegðarskatt. Hún hefur lækkað auðlindagjöld markvisst og það hefur þessi ríkisstjórn haldið áfram með. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það má gjarnan lækka tryggingagjaldið og Samfylkingin hefur beinlínis lagt til að það lækki mest á lítil og meðalstór fyrirtæki til að skapa fjölbreytni. Kannski segir saga síðustu daga okkur að það er fallvalt að treysta um of á risafyrirtæki sem hafa í rauninni taumhald á öllu í samfélaginu. Við getum búið okkur til kerfi þar sem 90% landsmanna þurfa ekki að borga neinn fjármagnstekjuskatt. 90% þjóðarinnar munu aldrei þurfa að borga neinn stóreignaskatt. En hvers vegna ríkisstjórninni finnst eðlilegt að þau 10% sem fá langstærstan skerf af öllum fjármagnstekjum borgi lægra hlutfall en meðaltekjufólk er mér algjör og fullkomin ráðgáta, sér í lagi þegar við horfum til þess að við erum með lægsta fjármagnstekjuskatt á Norðurlöndunum. Að útgerðarfyrirtæki sem hafa greitt sér 100 milljarða arð á síðustu tíu árum, sem er helmingi meira en þau hafa greitt fyrir aðgang að auðlindinni, geti ekki lagt meira til í þágu samfélagsins er líka ofar mínum skilningi.

Fjármálaráðherra sagði í viðtalsþætti um síðustu helgi að það truflaði hann ekki neitt persónulega þótt einhverjir græddu á kvótakerfinu. En það ætti öllum að vera ljóst að það kerfi sem býður upp á að nokkrir einstaklingar safni til sín meginþorra af öllum gróða auðlindarinnar er ekki aðeins meingallað heldur beinlínis hættulegt. Í skjóli þess geta örfáir einstaklingar, og hafa jafnvel, haslað sér völl á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Þá ættu einhverjar viðvörunarbjöllur að klingja í litlu samfélagi. Þetta er ekki bara svartsýn spá mín, í dag sjáum við dæmi um slík fyrirtæki í eigu örfárra einstaklinga sem eru með beinan og óbeinan eignarhlut í sjávarútvegi, orkufyrirtækjum, flutningsfyrirtækjum, eldsneytissölu, dagvörumarkaði, jafnvel útgáfu dagblaða. Þessi sjávarútvegsfyrirtæki hafa hagnast um 400 milljarða á þessum árum, sem er tæplega helmingurinn af þeim fjárlögum sem við erum að ræða í dag. Það væri kannski að æra óstöðugan að minna enn eina ferðina á að afnot af þessari verðmætustu auðlind okkar verður á næsta ári lægra en það gjald sem tóbaksneytendur borga í tóbaksgjöld.

Í öðru lagi furðar maður sig á hversu veigalítil fingraför fjárlaganefndar eru bæði á fjármálaáætlun og ekki síður fjárlögum. Einhverjir hljóta að spyrja sig: Til hvers er verið að halda úti batteríi, sem fundar reyndar mjög oft í kringum fjárlagagerð, ef það setur nánast ekki neitt mark á plaggið? Hlutverk hennar virðist fyrst og fremst vera að koma hingað upp sem tindátar ríkisstjórnarinnar og verja tillögur ráðherra. Út af fyrir sig er það kannski ekkert skrýtið að í meginatriðum fari stefna stjórnarliða og ríkisstjórnarinnar saman, en fyrr má nú vera. Ég efast um að það hafi verið jafn frumkvæðislaus meiri hluti fjárlaganefndar í mörg ár. Það er ekki einu sinni tekið undir nauðsynlega hækkun til héraðssaksóknara og ríkisskattstjóra í fjárlögum, bæði vegna álags á embættinu á þessu ári en einnig ætti öllum að vera ljóst í ljósi síðustu daga að embættin þurfa að ráðast í mjög langa og dýra og viðamikla rannsókn. Svo er það varið að hæstv. fjármálaráðherra ætli að ákveða hvort, hvenær og hversu mikið fé verði sett í þessa hluti úr varasjóðum. Mér finnst þetta hámark undirlægjuháttarins. Þarna á fjárlaganefnd að segja til — og reyndar hefur héraðssaksóknari sagt hvað hann þarf. Meiri hluti fjárlaganefndar á að taka undir tillögu okkar. Annars er langbest að meiri hluti fjárlaganefndar hlífi okkur við því að mæta í viðtöl á næstunni og tala um að þingið fari með fjárveitingavaldið. Mér finnst það reyndar stappa nærri dónaskap að vera að kalla trekk í trekk til umsagnaraðila sem leggja fram mjög ítarleg og vönduð gögn og gera síðan ekkert úr orðum þeirra. Raunar væri meiri hluta fjárlaganefndar hollt að lesa þær umsagnir sem hafa verið birtar af þessum aðilum síðustu tvö, þrjú ár vegna þess að þar er beinlínis varað við öllum þeim mistökum sem er verið að gera.

Herra forseti. Við Íslendingar erum fámennir og höfum ekki efni á öðru en að allir sem vettlingi geta valdið mæti á dekk og við þurfum auðvitað líka að gera fólki það kleift. Við horfum fram á lýðfræðilegar breytingar sem gera að verkum að færri og færri munu standa undir jafn mikilli eða meiri verðmætasköpun á næstu árum eigi okkur að auðnast að halda uppi jafn góðum lífskjörum og nú eða betri. Við höfum vissulega notið þess með EES-samningnum að hingað hefur flutt til langdvalar eða tímabundið fólk sem hefur unnið með okkur, á stóran þátt í hagvexti síðustu ára og hefur gert okkur kleift að manna greinar sem Íslendingar virðast ekki vilja starfa við. Mér finnst rétt um leið og ég þakka því fólki fyrir framlagið að benda á að það er umhugsunarvert að fjárlögin vilja ekki gera það að sama skapi með því að setja meiri peninga í rannsóknir á brotum sem hér fara fram eða launaþjófnaði eins og ASÍ kallar það.

Sá algjöri skortur á framsýni og dirfsku sem afhjúpast í þessum fjárlögum er raunar sérstaklega slæmur á tímum þegar eru að verða grundvallarbreytingar á allri tilveru okkar með nýrri tækni. Við erum að horfa á að stöðugt vaxandi hluti framleiðslu heimsins er stafrænn og eðlisólíkur þeirri framleiðslu sem við hingað til höfum stundað. Það er svo margt sem segir okkur að það sé ótrúlega mikilvægt að byggja undir þá framleiðslu og þær greinar sem byggja á hugviti og nýsköpun, ásamt auðvitað hinum hefðbundnu fyrirtækjum sem eru að búa til gríðarlega mikil verðmæti úr litlu, eins og lyfjafyrirtækin og fleiri. Þess vegna eru það náttúrlega stórkostleg vonbrigði að sú stórsókn sem var boðuð í menntamálum hafi aðallega reynst vera yfirlýsingar menntamálaráðherra sjálfs. Háskólar, sem nú þegar skortir fé, fá ekki raunaukningu og margir framhaldsskólar sjá fram á að framlögin beinlínis lækkuðu. Þá má benda á að afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna og nýsköpunar er auðvitað annað mikilvægt skref sem ríkisstjórnin ætti að stíga vegna þess að það er algjörlega nauðsynlegt í þeim efnum. Þá þurfa nýsköpunar-, rannsókna- og tæknisjóðir að vera miklu betur búnir en þeir eru í dag.

Með öðrum orðum: Á tímum þar sem við þurfum á því að halda að hér vaxi úr grasi ungt fólk sem býr yfir frumleika, hugvitssemi, áræðni en vissulega líka ábyrgð er ekkert sem bendir til þess að ríkisstjórnin sé að hugsa til slíkra hluta. Við þurfum einfaldlega að byggja atvinnulíf okkar upp með fjölbreyttari miðlum, byggja minna á frumframleiðslu og í miklu meira mæli á nýsköpun. Það má vel vera að einstakir flokkar í ríkisstjórninni hafi háleitari markmið á einstökum sviðum en birtast í fjárlögunum en þeir geta ekki vikið sér undan því að þeir eru þátttakendur. Þessir flokkar eru þátttakendur í þeim málamiðlunum sem er verið að gera. Ég held reyndar að Sjálfstæðisflokkurinn megi best við una vegna þess að hann stýrir efnahagsmálunum og hann þvingar fram hægri stefnu sína.

Hér var talað um að það væri ekki verið að skera niður. Það er ekki rétt. Það er velferðarþjónustan sem á að bera þungann og hitann ef hér verður kólnandi hagkerfi. Ég bendi á að aðhaldssemi er ekki einungis hægt að stunda með þeim hætti sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi áðan, með því að draga saman og spara. Það er líka hægt að afla tekna.

Að lokum getum við vel aflað tekna án þess að nokkur einstaklingur á Íslandi muni nokkurn tímann finna fyrir því. Þeir geta keyrt sína dýru bíla og búið í sínum stóru húsum áfram. Það er enginn að tala um annað. En við eigum hins vegar mikið undir því ef við ætlum að búa til kraftmikið, friðsamt og framsækið samfélag að hér verði enginn skilinn eftir undir einhverju sem við sjálf höfum talað um í ræðum að væru lágmarkslaun.

Frú forseti. Hér þarf nýja ríkisstjórn sem hefur framsýni en jöfnuð að leiðarljósi. Ég vona að hún verði til innan tveggja ára. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)