150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum í 3. umr. fjárlaga. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir milljarðalækkun á veiðigjöldum og það á sama tíma og við erum að tala um arðrán íslensks fyrirtækis á bláfátækri afrískri þjóð, þjóð sem er svo fátæk að þar er fæðuskortur vegna þurrka. Í Kjarnanum er frétt þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Alls bíða um 100 mál rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Þar af eru um 60 skattamál. Núverandi starfsmannafjöldi dugar ekki til að sinna þeim rannsóknarverkefnum. Hann vantar fleiri starfsmenn til að geta sinnt fleiri stórum rannsóknarverkefnum.“

Og áfram:

„Um 100 mál eru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara, sem er umtalsvert meira en er að jafnaði, þegar þau eru á bilinu 50 til 70. Af þeim 100 málum sem bíða rannsóknar eru um 60 skattamál. Núverandi starfsmannafjöldi embættisins dugar ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem það þarf að takast á við.

Vegna þessa hefur Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari lagt til að starfsmönnum á rannsóknarsviði embættis hans verði fjölgað um sex í byrjun árs 2020. Hann leggur auk þess til að starfsmönnum verði mögulega fjölgað um tvo til viðbótar síðar á árinu ef verkefnastaða embættisins gefur tilefni til.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Ólafur hefur sent dómsmálaráðuneytinu og RÚV greinir frá í dag. Meðalkostnaður fyrir hvert starf sem við bætist er áætlaður 15 millj. kr. og því myndi fyrsta aukningin kosta um 90 millj. kr.“

Hinn gígantíski gróði þess fyrirtækis sem þarna er um að ræða, Samherja, á síðustu tíu árum er yfir 100 milljarðar og það hlýtur að segja sig sjálft að ef fyrirtækið notar eitthvað af þeim peningum í mútur og skattundanskot verður fljótt að borga sig að bæta vel og vendilega í hjá saksóknara til að ná í þessa peninga. Ég held að það sé það eina rétta sem við getum gert og þá í þeim tilgangi líka að bæta hag þeirra sem á þurfa að halda. Við skulum athuga að á sama tíma og þetta er í gangi er Rauði krossinn með heimasíðu sem heitir Sárafátækt. Ekki veitir af því, enda fá flestir sem eru á örorkubótum 214.519 kr. á mánuði eftir skatt. Stór hluti eldri borgara þessa lands fær 212.902 kr. útborgaðar til að lifa af. Á sama tíma og þetta lítur svona út eru skerðingar gígantískar í þessu kerfi. Lífeyrissjóðstekjur eru skertar um 80% hjá öryrkjum og rúm 60% hjá atvinnulausum. Munurinn liggur eingöngu í því að ellilífeyrisþegar hafa fengið 25.000 kr. frítekjumark á lífeyristekjur. Það alvarlega í þessu máli er að á sama tíma og við erum að setja þessa litlu peninga inn er verið að skerða öryrkjana um 80% af lífeyrissjóðstekjum þeirra. 50.000 kr. lífeyrissjóðstekjur skila 10.000 kr.

Þetta er samt ekki nóg. Það furðulegasta við þetta kerfi er að þessar lífeyrissjóðsgreiðslur, 50.000 kr. sem skila bara 10.000 kr., eru einnig notaðar til að skerða jólabónus og orlofsuppbót á sama tíma og við þingmenn og aðrir fáum meira en helmingi hærri jólabónusa og margfalda á við öryrkja og ellilífeyrisþega án nokkurra skerðinga.

Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir. Örorka og málefni fatlaðs fólks hafa því miður setið eftir og einnig stór hluti ellilífeyrisþega sem lifir við fátæktarmörk. Afar brýnt er því að litið verði sérstaklega til mannréttinda þessa hóps og okkur ber að tryggja samfélag án mismununar, samfélag þar sem fatlað og langveikt fólk á rétt til lífs til jafns við aðra. Til að svo megi verða þarf að gera ráð fyrir verulegri aukningu fjármagns inn í alla málaflokka er varða fatlað fólk.

Í frumvarpi til fjárlaga hefur að litlu leyti verið tekið tillit til öryrkja og eldri borgara. Það er einungis hækkun á lífeyri um 3,5% þeirra og ekki er farið eftir launaþróun eins og ber að gera samkvæmt 69. gr. almannatryggingalaga. Í þeirri grein stendur skýrt um bætur almannatrygginga, með leyfi forseta:

„Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Hvers vegna förum við ekki eftir hinni einföldu 69. gr. laga sem við höfum samþykkt á þingi? Það skal tekið mið af launaþróun, þó þannig að bætur hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Það stendur skýrt í lögunum. Ef farið væri eftir þessu væri staðan mun betri hjá öryrkjum í dag. Þá væru þeir ekki alltaf skildir eftir, en það á að skilja þá eftir enn eina ferðina. Við erum að tala um mjög litlar hækkanir fram undan. Við erum að tala um 8.651 kr. á óskertan lífeyri, þ.e. úr 247.000 kr. á mánuði í 255.834 kr. fyrir skatt. Við verðum að átta okkur á því að frá 2009 til 2018 hefur óskertur örorkulífeyrir hækkað um 85.000 kr., lágmarkslaun um 143.000 kr. og heildarlaun fullvinnandi fólks um 256.000 en heildartekjur öryrkja aðeins um 106.000 kr. Sífellt dregur í sundur og alltaf er það á kostnað öryrkja. Skattbreytingar ríkisstjórnarinnar og ráðstöfunartekjur vegna þeirra munu því einungis aukast um 582 kr. á mánuði, þ.e. 6.984 kr. á ári.

Í fjárlagafrumvarpinu segir enn fremur að nýtt skattkerfi sé í þágu þeirra tekjulægri og muni létta til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa. Áhrif skattbreytinganna fyrir örorkulífeyrisþega og aðra með mjög lágar tekjur eru hverfandi. Þetta eru sláandi tölur og það er skelfilegt til þess að hugsa að það skuli vera mært og talið alveg frábært að lífeyrisþegar skuli fá hækkun á persónuafslætti upp á 582 kr. á mánuði. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009 væri frítekjumark komið í 207.000 kr. á mánuði í stað 109.600. Þessu á ekki að breyta — jú, kannski 2020. Á sama tíma hefur hins vegar hægt mjög á fjölgun öryrkja sem hlutfalli af mannfjölda og lækkun hlutfalls öryrkja er úr 9,9% í 9,8% í janúar á þessu ári. Ríkisstjórnin hefur boðað tugmilljarðakostnað vegna fjölgunar öryrkja. Eru þá ekki nægir fjármunir til að bæta vel kjör lífeyrisþega með þeim peningum? Nei.

Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvað sé að í sál ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn sem hefur verið við völd og getur fundið hjá sér hvata til að skerða jólabónus, skerða orlofsuppbót með lífeyrissjóðsgreiðslum sem er þegar búið að skerða. Mér er brugðið og mér er gjörsamlega misboðið að þetta skuli vera svona. Á sama tíma horfum við upp á hvað er verið að borga í jólabónus. Lífeyrisþegar fengu 43.000 kr. 2018 en ríkisstarfsmenn 89.000, atvinnuleitendur 81.000 og meira að segja atvinnulausir fá nær helmingi meira en öryrkjar. Við þingmenn fáum 181.000 kr. — nærri 200.000.

Mikilvægt er að hafa í huga að einungis hluti lífeyrisþega fær desember- og orlofsuppbót óskerta þar sem þær eru reiknaðar sem hlutfall af tekjutryggingu og heimilisuppbót en einungis um 29% örorkulífeyrisþega fá greidda heimilisuppbót. Lífeyrissjóðir greiða ekki orlofs- og desemberuppbót. Hluti lífeyrissjóðsþega fær því enga eða mjög skerta desember- eða orlofsuppbót. Það er ekki nóg að lífeyrisþegar þurfi að reikna út skerðingar sem verða innan Tryggingastofnunar, þeir þurfa líka að reikna skerðingar sem verða úti í sveitarfélögunum. Við búum í stórfurðulegu kerfi sem er með keðjuverkandi skerðingum í, að því er virðist, þeim eina tilgangi að skerða bætur öryrkja og lífeyrisþega.

Þá höfum við líka stórfurðulegt kerfi sem hefur komið mér á óvart og er eiginlega okkur til háborinnar skammar og það eru búsetuskerðingar. Á árinu 2017 voru 92 lífeyrisþegar með heildartekjur undir 80.000 kr. á mánuði. Hvernig í ósköpunum getum við gert þetta? Hvernig getum við sagt: Heyrðu, nú átt þú að lifa á 80.000 kr. á mánuði?

Það er sorglegt til þess að vita að fjárlög séu komin í 1.000 milljarða og að það hafi alltaf verið sagt að þegar góðærið kæmi fengju eldri borgarar, öryrkjar og láglaunafólk bætur sínar og hækkanir. Hæstv. fjármálaráðherra talaði í ræðu sinni um að kaupmáttur launa hefði aldrei verið meiri. Fólk sem er á lægstu launum og bótum og á lífeyri kaupir ekki inn með kaupmætti. Það veit ekki af kaupmættinum. Það fær ekki kaupmátt. Þess vegna er með ólíkindum að tala um að kaupmáttur skili sér til allra. Hann gerir það ekki og það er grafalvarlegt mál þegar þeim sem verst hafa það hér á landi er gefin fölsk von.

Þá á að lækka persónuafsláttinn um 5.000 kr. Við lækkum persónuafsláttinn með annarri hendinni en tökum hann til baka með hinni hendinni. Við gefum lægri skattprósentu með annarri hendinni en við tökum hana af með hinni hendinni og það með því að lækka persónuafsláttinn. Látum a.m.k. persónuafsláttinn vera. Það hefði verið frábært skref að láta hann bara vera eða hækka hann samkvæmt neysluvísitölu eins og á að gera. Nei, það er allt of mikið fyrir þessa ríkisstjórn. Það varð að sjá til þess að þeir sem minnst hefðu fengju ekki þá hungurlús sem átti að skammta þeim.

Hver gerir svona? Þessi ríkisstjórn. Því miður er í flestum tilfellum ekkert að marka heildarútborgun launa til öryrkja vegna skerðingar eftir á. Það tel ég vera mannréttindabrot því að þeirra réttu greiðslur leiðréttast ári seinna. Það kemur hins vegar hvergi fram. Það er alveg með ólíkindum að það skuli vera leyft að hafa kerfið svona, að það skuli vera hægt að setja á blað að einhver sé með 350.000 kr. heildarlaun á mánuði yfir árið en lendi svo í skerðingum ári seinna og að það komi ekki fram í skattskýrslu. Kom það fram einhvers staðar? Nei, svona fela þeir gjörningana, sem er ömurlegt vegna þess að það er engin þörf á öðru en að hægt sé að sýna tölurnar á rauntíma, það á að reikna út bætur á rauntíma. Og öllum til furðu er meira að segja fjármálaráðherra orðinn sammála því.

Sjúkrakerfið okkar er í algjörum lamasessi og við ætlum ekki einu sinni í þessu fjárlagafrumvarpi að sjá til þess að sjúkrahús og bráðadeildir geti starfað eðlilega. Álagið eykst og við verðum að finna peninga. Það er orðið lífshættulegt að fara á bráðadeild.

Síðan er annað komið upp í háaloft og það er sjúkraþjálfun. Það er grafalvarlegt mál að það skuli vera búið að rústa því kerfi sjúkraþjálfara sem var komið á mjög góðan skrið. Ég tel nýgengi örorku komið til að miklu leyti vegna þess að þeir öryrkjar sem áður höfðu ekki efni á sjúkrakerfinu gátu leitað til sjúkraþjálfara.

Svo er fólk þarna úti sem hefur ekki efni á að leita til læknis, hefur hvorki efni á að fara í læknisrannsókn né að leysa út lyf. Versta tilfellið sem ég hef séð er að hjón sem bæði þurfa á miklum lyfjum að halda lenda á sama tíma í því að greiðslutími lyfja er runninn út. Þá þurfa þau að leggja út fyrir lyfjakostnaði upp á tugþúsundir sem þau eiga ekki til. Hvað á þetta fólk að gera? Það er stórfurðulegt að á sama tíma og þetta er í gangi skuli vera látið viðgangast ár eftir ár, eins og kemur fram í meirihlutaálitinu að því er mér skilst, að lögð sé til t.d. 82 millj. kr. viðbót vegna þjóðkirkjunnar, framlag vegna launa- og verðbreytinga. Hvernig væri að vera með svona framlag fyrir öryrkja? Hvernig væri að fram kæmi framlag vegna launa- og verðbreytinga örorku- og ellilífeyrisþega eða framlag vegna launa- og verðtryggingabreytinga vegna Landspítala – háskólasjúkrahúss? Þar eru hlutirnir komnir í mínus vegna þess að ekki eru lagðir fram nógir fjármunir til að standa undir launakostnaði.

Síðan vil ég benda á breytingartillögu við frumvarp frá 2018 sem Flokkur fólksins, Samfylkingin og Píratar standa að. Þar er farið fram á að hækka bætur eldri borgara og öryrkja til samræmis við lífskjarasamninginn eða lægstu laun. Það er eiginlega stórfurðulegt, ef maður hugsar út í það, að það skuli þurfa að leggja þetta fram og það sem er enn furðulegra við þetta er að þetta verður fellt, að það skuli vera fellt og að það skuli vera hægt að reikna út og standa á því fastara en fótunum að ákveðinn hópur eigi bara að gjöra svo vel að tóra og lifa á miklu minni framfærslu en eðlilegt getur talist. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum er hægt að leggja svona fram?