150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:30]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Eftir hreint ótrúlegan vöxt í ferðaþjónustu undanfarin ár er farið að hægja á vextinum og reiknað er með 15–17% fækkun ferðamanna í ár frá síðasta ári. Ferðaþjónustan hefur gert mjög mikið fyrir efnahag landsins síðustu ár og í raun staðið undir hagvexti áranna eftir hrun. Landið á því mikið undir ferðaþjónustunni og er mikilvægt að styðja við greinina eins og mögulegt er. Hætt er við að þessi fækkun ferðamanna bitni sérstaklega illa á þeim er síst skyldi og svæðin utan höfuðborgarinnar gætu svo sannarlega tekið við fleiri gestum. Það er því augljóst að gera ætti þeim svæðum mun hærra undir höfði í markaðsstarfi sem fjármagnað er með opinberu fé að hluta eða að öllu leyti. Það er mikilvægt við þær aðstæður sem blasa við að erlendu markaðsstarfi og þróun markaðsvæða verði sinnt áfram með öruggum hætti. Því miður sjáum við framlög til málefnasviðs ferðaþjónustunnar lækka um 270 millj. kr. eða 12,8% frá fjárlögum 2019 og ekkert málefnasvið lækkar jafn mikið. Lækkunin skýrist að vísu að stórum hluta af lækkun framlaga til Flugþróunarsjóðs en heppilegra hefði verið að fjármagnið hefði samt sem áður verið nýtt í málaflokkinn en ekki tekið út úr honum eins og hér hefur verið lagt til. Þá er ekki síður mikilvægt að staðinn sé vörður um Flugþróunarsjóð í fjárlögum til næstu ára. Reynsla í öðrum löndum sýnir að það verkefni að opna nýjar gáttir er langhlaup sem þarf verkfæri, líkt og Flugþróunarsjóður er. Einnig er mikilvægt að svæðin í kringum alþjóðaflugvellina á Egilsstöðum og Akureyri fái áfram sérstakt fjármagn til markaðssetningar og þróunarvinnu beintengt eflingu millilandaflugs á svæðinu.

Frá flugþróun yfir í áfangastaðaþróun. Ekki er hægt að sjá að gert sé ráð fyrir auknu fjármagni til Ferðamálastofu í fjárlagafrumvarpinu. Síðastliðin tvö ár hafa svæðin í samstarfi við Ferðamálastofu unnið að gerð áfangastaðaáætlana og horft var til þess að stofnaðar yrðu áfangastaðastofur í kjölfarið sem myndu hafa það hlutverk að framfylgja áfangastaðaáætlun. Umfangsmikil skýrsla var gerð fyrir Ferðamálastofu um mismunandi sviðsmyndir áfangastaðastofa um allan heim. Síðan sú skýrsla kom út fyrr á árinu hefur lítið gerst. Það sem maður óttast er að enn einni skýrslunni sem leggur til úrbætur verði smokrað ofan í skúffu. Sömuleiðis er áhyggjuefni að stórar ákvarðanir verði teknar án raunverulegs samráðs við landshlutana sem væri mjög óheppilegt fyrir framtíð verkefnisins. Vonandi verður það þó ekki raunin.

Frú forseti. Í því samhengi má nefna að samningar markaðsstofa landshlutanna við Ferðamálastofu renna út í árslok 2020 og ekki liggur enn fyrir hvað tekur við. Það sama má segja um upplýsingaveitu til ferðamanna en fjármagn mun ekki berast til upplýsingamiðstöðva árið 2020 og enn er óljóst hvað eigi að taka við og hver muni sjá um upplýsingaveitu til ferðamanna. Slík óvissa er ekki góð og setur þá aðila sem starfa við uppbyggingu innviða ferðamála í mjög erfiða stöðu.

Nú liggur fyrir umfangsmikil vinna varðandi skilgreiningar á sjálfbærnivísum er nefnast jafnvægisás ferðamála, sem setur framtíðarsýn og leiðarljós fyrir ferðaþjónustu til 2030. Unnið er að mótun aðgerða og er gríðarlega mikilvægt að fyrir liggi hvernig fjármagna eigi þær nauðsynlegu aðgerðir sem ráðast þarf í. Við höfum einstakt tækifæri til að byggja upp ferðaþjónustu um allt land í öllum samfélögum, stórum sem smáum, sem eflir byggðafestu og lífsgæði. Það er mjög mikilvægt að því einstaka tækifæri verði ekki glutrað niður vegna óvissu um fjármögnun þeirra úrbótaverkefna sem þar þarf að ráðast í.

Að lokum langar mig að ræða aðeins um nýsköpunarmál og stöðu þeirra á Íslandi. Nýverið voru birtar niðurstöður dr. Daða Más Kristóferssonar á framlögum til rannsókna og nýsköpunar eftir landshlutum sem hann vann fyrir Vísinda- og tækniráð. Þar kemur skýrt fram að mikið hallar á landshlutana utan höfuðborgarsvæðisins þótt sannarlega sé munur á milli landshluta. 90% af framlögum til rannsókna og nýsköpunar renna til höfuðborgarsvæðisins. Viðbrögð forsætisráðherra í kjölfarið voru á þann veginn að það væri skylda stjórnvalda að byggja upp vísinda- og nýsköpunarstarf um land allt. Stjórnvöld verða því að tryggja jafnræði hvað varðar tækifærin til að sækja í stuðningsumhverfið allt og að stofnanir í öllum landsvæðum séu í stakk búnar með starfsfólki sem getur aðstoðað við umsóknir í rannsókna- og nýsköpunarsjóði. Þrátt fyrir 2% aukna fjárveitingu til Nýsköpunarmiðstöðvar frá árinu 2018 er staðan sú að miðstöðin er t.d. ekki með starfsmann á Austurlandi til að sinna frumkvöðlum í landshlutanum. Raunar hefur starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar fækkað á síðustu árum utan höfuðborgarsvæðisins á meðan þeim hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu.

Frú forseti. Það er allt sem bendir til þess að mikilvægt sé að fara í gagngerar breytingar á umhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja á landsbyggðinni með tilliti til aðgengis að þróunarstyrkjum og stuðningsumhverfi sem fjármagnað er af opinberum aðilum. Ljóst er af fjármunir sem eyrnamerktir eru í þetta á fjárlögum skila sér í mjög litlum mæli til ýmissa samfélaga, m.a. Austurlands, og er það algjörlega óásættanlegt. Þá er sömuleiðis algerlega óásættanlegt að ríkið hamli hreint og beint uppbyggingu fyrirtækja í dreifbýli með því að bjóða þeim ekki að sitja við sama borð þegar kemur að annars vegar dreifikostnaði raforku og hins vegar flutningskostnaði.

Frú forseti. Þessu þarf að breyta og því miður eru ekki vísbendingar um að það eigi að gera í fjárlagafrumvarpinu sem eru gífurleg vonbrigði.