150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki frekar en hv. þingmaður hvaða ástæður kunna að liggja að baki því að beiðni, sem ég veit í rauninni ekki á hvaða degi barst til ráðuneytisins, er ekki komin til fjárlaganefndar eða hvort hún muni berast þangað. Það sem ég hins vegar veit og hef heyrt í umræðunni, alveg eins og hv. þingmaður, er að vegna þeirra fjárbeiðna sem kunna að berast á þessu ári eru enn þá fjármunir til í varasjóði til að bregðast við á þessu ári. Varðandi næsta ár get ég a.m.k. ekki fullyrt á þessu stigi málsins hversu mikil fjárþörfin verður þá. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að hún verður vafalítið einhver en nákvæmlega hver hún verður veit ég ekki. Ég þori ekki að segja til um það hvort ráðuneytið muni meta það svo þegar líður á árið og þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um hversu mikil fjárþörfin verður eða hvort varasjóður muni duga eða hvað. Ég þori hreinlega ekki að fara með það. En ég hins vegar trúi því alveg sem hefur verið sagt hérna að bæði muni þessar stofnanir hafa nægilegt svigrúm innan sinna heimilda til að geta ráðstafað fjármunum í tilteknar rannsóknir og ítreka það sem ég sagði áðan, að það á ekki að vera hlutverk þingsins að ákveða það fyrir fram áður en komin er einhver beiðni til þess. Við viljum að einhver tiltekin stofnun rannsaki hver tiltekin mál.