150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt hjá þingmanninum að hvað sem við köllum það hefur orðið hliðrun á framkvæmdum vegna Landspítalans. Ég hef sagt það bæði nú áðan og líka í ræðu minni við 2. umr. að ég tel það ekki heppilegt. Það er hins vegar ekki af ástæðum sem við í sjálfu sér ráðum við að öðru leyti en því að framkvæmdir hafa tafist. Alla vega eru það þær upplýsingar sem við fáum frá forsvarsmönnum nýs Landspítala. En það er rétt að með því að ýta framkvæmdunum á undan okkur má kannski segja eins og um flest sem maður frestar að því meira sem maður ýtir verkefnum á undan sér, því meiri líkur eru á að á endanum muni það tefja lok framkvæmdanna. Það er alveg hárrétt. En alla vega á þessu stigi, á meðan við höfum ekki aðrar upplýsingar en þær sem við fáum frá nýjum Landspítala, sé ég ekki ástæðu til að rengja það. Það má líka alveg velta því fyrir sér hvort í þjóðhagslegu tilliti sé jafnvel heppilegt að reyna að dreifa svona stórri framkvæmd yfir lengri tíma. En það er aftur allt önnur saga.