150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:27]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þar sem lagt er til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs annars vegar og fæðingarstyrks hins vegar lengist úr níu mánuðum í tólf mánuði.

Tilefni frumvarpsins er að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2020–2024 er m.a. gert ráð fyrir lengingu á rétti foreldra til fæðingarorlofs. Í tengslum við lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði sl. vor skuldbundu stjórnvöld sig enn fremur til að efla fæðingarorlofskerfið með því að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Er þannig gert ráð fyrir að í fyrri áfanga lengist samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks um einn mánuð vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Þannig bætist einn mánuður við sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig sem verður þá fjórir mánuðir í stað þriggja mánaða eins og nú er. Þá verður sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs tveir mánuðir sem foreldrar geta skipt með sér að vild í stað þriggja mánaða líkt og nú er.

Í síðari áfanga lengist samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks um tvo mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Þannig bætist einn mánuður við sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig sem verður þá fimm mánuðir í stað fjögurra mánaða. Þá verður sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs áfram tveir mánuðir sem foreldrar geta skipt með sér að vild.

Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs annars vegar og fæðingarstyrks hins vegar verði að fullu komin til framkvæmda fyrir foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er sú tilhögun á skiptingu fæðingarorlofsréttar milli foreldra sem fram kemur í frumvarpinu vel til þess fallin að ná markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í því sambandi má nefna að niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda til þess að ábyrgð vegna umönnunar barna sé nú jafnari milli foreldra en áður var og því ber að fagna. Niðurstöður rannsókna sýna enn fremur að sú tilhögun að binda það í lög að foreldrar eigi sjálfstæðan fæðingarorlofsrétt hvort um sig hafi reynst árangursrík leið til breytinga hvað varðar jafnrétti kvenna og karla.

Virðulegur forseti. Í mínum huga er engum blöðum um það að fletta að það kerfi sem við höfum komið okkur upp til að auðvelda foreldrum að taka sér leyfi frá störfum í tengslum við barneignir er gríðarlega mikilvægt fyrir foreldra en ekki síður fyrir börnin. Ég er einnig þeirrar skoðunar að fæðingarorlofskerfið sé þannig kerfi að við sem samfélag eigum að leggja áherslu á að þeir sem eiga rétt innan kerfisins nýti réttinn og nýti hann til fulls en þannig náum við þeim árangri sem stefnt er að með þessum réttindum.

Áður en ég legg til að þetta frumvarp fari til nefndar vil ég líka segja að það eru ýmsar aðrar breytingar sem þörf er á að gera á fæðingarorlofskerfinu og þess vegna er í gangi sérstök vinna núna við heildarendurskoðun laganna sem verða 20 ára á næsta ári. Markmiðið er að koma með frumvarp það ár varðandi ýmsar þær breytingar, athugasemdir umboðsmanns og fleira sem borist hafa á undanförnum árum. Að þessu loknu legg ég einnig áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi sem allra fyrst þannig að foreldrar framtíðarinnar geti gengið að því vísu hvernig rétti þeirra til fæðingarorlofs verði háttað á komandi árum og legg því til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.