150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Veruleikinn er stundum býsna flókinn og hann virðist vera sérstaklega flókinn í rekstri margra stórfyrirtækja sem hasla sér völl á alþjóðlegum vettvangi. Maður veltir fyrir sér af hverju þessi veruleiki sé svona flókinn og af hverju rekstur sé skipulagður með svo flóknum hætti sem raun ber vitni. Við þekkjum það öll að fræg stórfyrirtæki, mörg af þeim stærstu í heiminum, ég nefni bara Apple og Google, hafa verið til sérstakrar skoðunar, m.a. hjá samkeppnisyfirvöldum í Evrópu, vegna þess að það kemur á daginn að þessi fyrirtæki virðast hvergi í heiminum greiða nema örlitla skatta.

Íslenskt stórfyrirtæki hefur talsvert verið til umræðu. Ég held að það hafi verið í gær sem birt var viðtal við fyrrverandi fjármálastjóra þess fyrirtækis þar sem hann lýsti því að það væri erfitt að hafa yfirsýn — því að það væru ekki nema 130 félög í samstæðunni. Hann sagði að það væri erfitt að fylgjast með þessu öllu. Forstjóri sama fyrirtækis sagði sig í gær eða fyrradag úr 14 stjórnum fyrirtækja í Bretlandi og það eru víst ein tíu félög á Kýpur, svo ég nefni nokkur. Maður hlýtur að spyrja hvaða tilgangi þetta þjóni allt saman. Þetta hlýtur að þjóna einhverjum tilgangi.

Ég held að þetta sýni okkur og færi okkur heim sanninn um hversu mikilvægt það er að við eigum stofnanir sem skilja, (Forseti hringir.) geta fylgt eftir og rakið starfsemi þessara fyrirtækja til að þau standi samfélagsleg skil á því sem þeim ber samkvæmt lögum.