150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þær breytingar sem við erum að klára hér fyrir 3. umr. fjárlagafrumvarps eru fyrst og fremst af tæknilegum toga. Allar meginbreytingar voru kláraðar við 2. umr. Fjárlögin eins og við samþykkjum þau nú eru skynsamleg út frá mikilvægu hagstjórnarhlutverki. Stefna hæstv. ríkisstjórnar birtist hér og er beinlínis hönnuð til að mæta hjaðnandi hagvexti, til að veita viðspyrnu í hagkerfinu, auka verðmætasköpun og byggja áfram upp innviði, styðja við atvinnulífið og heimilin í landinu og standa þannig við þær áætlanir sem lagt var upp með í stjórnarsáttmála og samþykktar voru í ríkisfjármálaáætlun. Hæstv. ríkisstjórn skilur þannig afkomuna alla og gott betur eftir í hagkerfinu og við getum með myndarlegan afgang á frumjöfnuði áfram greitt niður skuldir ríkissjóðs.

Ég vil að lokum þakka allri hv. fjárlaganefnd fyrir góða vinnu og við að leggjast á árar til að klára þessa vinnu og umfjöllun í samræmi við starfsáætlun hæstv. forseta.