150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:07]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Samkvæmt lögum er nýting úr almennum varasjóði háð ströngum skilyrðum og ákvæðin ber að túlka þröngt. Það stendur í greinargerðinni. Þar segir að útgjöldin þurfi að vera ófyrirséð og það eru þau ekki fyrir árið 2020. Það er ekkert ófyrirséð að það þurfi að rannsaka Samherjamálið á næsta ári. Til viðbótar verða útgjöldin að vera þannig að það sé ókleift að mæta þeim með öðrum hætti, eins og segir í lögunum. Þetta er ekki heldur uppfyllt því að við erum enn með opin fjárlög sem geta tekið á þessu. Sé ætlunin að nota varasjóðsmálaflokka þá þurfa þau útgjöld líka vera óvænt samkvæmt lögunum, sem þau eru ekki í þessu tilviki. Svo minni ég þingheim á það að varasjóður fyrir héraðssaksóknara er tómur. Það eru 0 kr. í honum, bæði fyrir 2019 og 2020. Þess vegna, herra forseti, eru það ekki tæknilegir útúrsnúningar að benda á þetta. Að styðja hins vegar ekki sjálfsagða tillögu sem aðrir leggja hér fram bendir til dapurlegs sandkassaleiks.